Fylgstu með okkur:

Fréttir

Vongóðir um að finna sér ný lið

Emil og Birkir eru bjartsýnir á að finna sér ný lið eftir lands­leik­ina tvo gegn Moldóvu og Albaníu.

Emil og Birkir í baráttu við Lionel Messi á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í fyrra. ÍV/Getty

Landsliðsmennirnir Emil Hallfreðsson og Birkir Bjarnason eru báðir án félags fyrir landsleiki við Moldóvu á Laugardalsvelli laugardaginn 7. september og Albaníu á útivelli þriðjudaginn 10. september í undankeppni EM 2020 en þeir eru bjartsýnir á að finna sér ný lið eftir þá leiki.

Emil, sem er 35 ára, er samningslaus eftir að samningur hans við Udinese rann út í sumar og leitar nú fyrir sér hjá nýju liði. Hann segir að eitthvað sé búið að gerast varðandi það að finna sér nýtt lið en ætlar þó fyrst um sinn að einbeita sér að landsleikjunum tveimur.

„Það er eitt­hvað að ger­ast í mín­um mál­um en það er ekki komið svo langt að ég sé bú­inn að skrifa und­ir samn­ing. Ég ætla að taka þetta verk­efni með landsliðinu og ein­beita mér að því og leggja mín per­sónu­legu mál til hliðar á meðan. Eins og staðan er í dag er Ítal­ía efst á blaði og svo sjá­um við hvort það verður að veru­leika að ég spili þar áfram,“ sagði Emil í sam­tali við mbl.is í dag.

Emil hefur verið orðaður við endurkomu til síns fyrrverandi félags, Hellas Verona sem leikur í ítölsku A-deildinni og þá var hann einnig orðaður við ítalska B-deildarliðið Ascoli.

Birkir, sem er 31 árs gamall, er einnig án félags eftir að hafa skrifað und­ir starfs­lok sín hjá enska úrvalsdeildarliðinu Aston Villa í síðasta mánuði þar sem hann komst að sam­komu­lagi um rift­un samn­ings.

Birkir seg­ist hafa verið ná­lægt því að semja við lið fyrir nokkru síðan en hann hefur verið orðaður við lið á Ítalíu og í Tyrklandi.

„Ég var kominn með samning á borðið og það var klárt en það gekk ekki upp og það er sérstök staða en ég geri mitt besta eins og alltaf. Ég hugsa ekkert meira út í það fyrr en eftir leikina og svo sjáum við til hvað gerist,“ sagði Birkir í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir