Fylgstu með okkur:

Fréttir

Vonast eftir því að það rétta fari að detta inn

Emil var í skemmti­legu innslagi á RÚV þar sem skyggnst var á bak við tjöld­in.

Mynd/Skjáskot af vef Rúv

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson er enn samningslaus eftir að samningur hans við Udinese rann út í sumar og bíður nú eftir rétta félaginu.

Emil var í skemmti­legu innslagi á RÚV í gær þar sem skyggnst var á bak við tjöld­in hvernig hefðbundinn dagur er í lífi landsliðsmanns sem er ekki samningsbundinn félagsliði.

Emil segist ekki bíða við símann en vonast þó eftir því að rétta tilboðið fari að koma inn.

„Nei, ég kannski bíð ekkert við símann. En maður er alltaf að vonast eftir því að það rétta fari að detta inn. En á meðan er ég bara að gera hluti sem þið hafið fengið að sjá mig gera í morgun,“ sagði Emil.

Aðspurður hvort hann sé orðinn stressaður á stöðu sinni að vera ekki kominn með félagslið, svaraði Emil:

„Ég væri klárlega til í að ég væri búinn að ganga frá þessu. En jú, það koma alveg augnablik inn á milli þar sem maður hugsar af hverju rétta dæmið hefur ekki komið upp.“

Emil segist hafa hafnað nokkrum tilboðum og nefnir Indónesíu sem dæmi um mögulega áfangastaði sem hafa ekki heillað.

„Já, ég hef fengið einhver tilboð frá löndum sem ég er bara ekki alveg tilbúinn í að fara með fjölskylduna. Einhvers staðar lengst úti í heimi. En þau eru ekkert mörg. Bara nokkur sem ég afþakkaði strax. En ég er alltaf að vona að Ítalía detti inn. En samt sem áður er ég alveg farinn að opna hugann fyrir öllu núna eiginlega. En ég er mjög ólíklega að fara með fjölskylduna til Indónesíu eða eitthvað álíka,“

Þá segir hann að umboðsmaðurinn sé að sjá hvaða möguleikar eru í boði.

„Einhvern tímann fyrr í sumar hefði maður getað verið búinn að skrifa undir eitthvað en var þá að búast við einhverju betra. Einhverju sem maður hefði kannski tekið í dag. En það er bara eins og gengur og gerist. Maður velur og hafnar. Það er bara að halda áfram. Þannig að núna er umboðsmaðurinn bara í því að sjá hvaða möguleikar eru í boði. Þannig að maður bíður í raun bara daglega eftir einhverjum nýjum upplýsingum“

„Ég er mjög bjartsýnn. Ég hef enga trú á öðru en að ég finni eitthvað gott lið. Ég get líka lofað því að liðið sem fær mig verður mjög ánægt með mig þegar ég mæti á sviðið. Ég er alveg viss um það“

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir