Fylgstu með okkur:

Fréttir

Viðar Örn til liðs við Rubin Kazan

Viðar Örn gekk í dag í raðir Rubin Kazan frá Rostov á láns­samn­ingi sem gild­ir út leiktíðina.

Mynd/Rubin Kazan

Íslenski landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson hefur gengið til liðs við rússneska félagið Rubin Kazan frá Rostov á lánssamningi sem gildir út leiktíðina. Þetta var tilkynnt nú rétt í þessu.

Viðar mætti í gær á æfingasvæði Rubin Kazan þar sem hann gekkst undir læknisskoðun og kláraði þá hluti sem átti eftir að klára.

Viðar mun leika í treyju númer 8 hjá Rubin Kazan.

Rubin Kazan endaði síðustu leiktíð í 11. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar af 16 liðum. Um síðustu helgi gerði liðið 1-1 jafntefli við Lokomotiv Moskvu í fyrsta leik sínum á nýhöfnu keppnistímabili. Liðið spilar á morgun við Dinamo Moskvu á útivelli og búast má við því að Viðar verði í leikmannahópi félagsins í þeim leik.

Viðar Örn lék síðustu mánuði á lánssamningi hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Hammarby frá Rostov og sá samningur rann út í vikunni. Hann átti góðu gengi að fagna á tímabilinu með Hammarby en hann skoraði 7 mörk í 15 deildarleikjum með liðinu.

Rostov keypti Viðar Örn fyrir um ári síðan frá ísraelska félaginu Macca­bi Tel Aviv fyrir 2,5 milljónir evra, um 355 milljónir króna.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir