Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Viðar Örn skoraði eitt í stór­sigri Hammarby

Viðar Örn skoraði í dag eitt mark fyrir Hammarby sem vann stórsigur í sænsku úrvalsdeildinni.

Mynd/fotbolldirekt.se

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson skoraði eitt marka Hammarby sem burstaði Falkenbergs FF, 6-2, á heimavelli í 14. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Viðar Örn lék allan leikinn og skoraði annað mark sinna manna. Viðar var réttur maður á réttum stað á 13. mínútu leiksins þegar hann kom boltanum í mark Falkenbergs eftir mikinn vandræðagang í vörn gestanna. Markið má sjá neðst í fréttinni.

Þetta var sjötta deildarmark Viðars í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinnni en hann var mögulega að leika sinn síðasta leik fyrir Hammarby, því lánssamningur hans hjá félaginu rennur út eftir rúma viku, þann 15. júlí.

Eftir sigurinn í dag er Hammarby í 7. sæti deildarinnar með 22 stig.

Viðar hefur sagt í fjölmiðlum að hann sé ekki viss með hvaða liði hann mun spila fyrir þegar lánssamningur hans rennur út. Viðar er samningbuninn rússneska liðinu Rostov og greint hefur verið frá því að Rubin Kazan þar í landi hafi áhuga á að fá hann í sínar raðir.

Guðmundur Þórarinsson spilaði í dag allan tímann fyrir Norrköping sem vann 2-1 sigur á Häcken á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Jordan Larsson kom Norrköping í forystu eftir 11. mínútna leik og liðið var með 1-0 forystu þangað til tuttugu mínútur voru til leiksloka. Gustav Vergren skoraði þar jöfnunarmark fyrir Häcken en nokkrum mínútum síðar skoraði Christoffer Nyman fyrir Norrköping sem reyndist sigurmarkið í leiknum. Lokatölur 2-1 fyrir Norrköping, sem er í 6. sæti deildarinnar með 24 stig, tveimur stigum meira en Hammarby.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið