Fylgstu með okkur:

Fréttir

Viðar Örn óviss um framtíð sína

Viðar Örn segist ekki vera viss með hvaða liði hann leikur með þegar lánssamningur hans hjá Hammarby rennur út.

Viðar Örn Kjartansson segist ekki vera viss með hvaða liði hann leikur með þegar lánssamningur hans hjá Hammarby rennur út um miðjan næsta mánuð.

Viðar Örn gekk í raðir sænska úrvalsdeildarfélagsins Hammarby á láni frá Rostov í Rússlandi í marsmánuði og lánssamningur hans rennur út þann 15. júlí.

„Það er erfitt að segja hvað gerist. Ég er samningsbundinn Rostov og ég gæti endað hvar sem er, kannski gæti ég farið á lán í eitt ár í viðbót á öðrum stað en í Svíþjóð og mögulega gæti ég spilað með Rostov. Það ætti að koma í ljós á næstu vikum,“ sagði Viðar Örn í samtali við Vísi fyrr í dag.

Viðar Örn á þrjú ár eftir af samningi sínum við Rostov og hann segir að það er allt undir Rostov komið að ákveða framhaldið.

„Þeir sögðu við mig að þeir myndu mögulega vilja fá mig aftur og það er erfitt að segja. Það þarf að finna réttan stað þar sem þjálfarinn hefur trú á þér,“ sagði Viðar Örn við Vísi í dag.

Viðar Örn hefur verið funheitur upp á síðkastið fyrir Hammarby og hefur skorað fimm mörk fyrir liðið í 11 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni. Liðið er í 6. sæti deildarinnar með 19 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir