Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Viðar Örn lék í sigri Hammarby

Viðar Örn var í framlínu Hammarby sem vann sigur í dag.

Mynd/Hammarby

Viðar Örn Kjartansson var í framlínu Hammarby sem hafði betur gegn Örebro, 2-3, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Viðar Örn spilaði allan leikinn.

Viðar Örn og félagar í Hammarby voru heilt yfir mikið betri aðilinn í leiknum ef marka má tölfræði leiksins. Hammarby átti átján marktilraunir á móti átta frá Örebro og þá var Hammarby aðeins meira með boltann.

Sitt hvorum megin við hálfleikinn skoraði Hammarby tvö mörk. Fyrra markið var skallamark á 43. mínútu og annað markið var laglegt þar sem Nikola Djurdjic skoraði í neðra hægra hornið fyrir utan vítateig. Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum bætti Imad Khalili þriðja markinu við fyrir Hammarby en á síðustu tíu mínútunum minnkaði Örebro muninn niður í eitt mark með tveimur skallamörkum.

Flottur sigur hjá Viðari og samherjum hans í Hammarby sem eru í 7. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 11 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun