Fylgstu með okkur:

Fréttir

Viðar Örn gæti farið til Djurgården

Viðar Örn Kjartansson er sagður vera á förum frá félagi sínu Rostov.

Viðar í leik með Íslandi gegn Mexíkó fyrir ári síðan. ÍV/Getty

Viðar Örn Kjartansson er á förum frá rússneska félaginu Rostov, samkvæmt heimildum Fótbolta.net í dag.

Leikmaðurinn hefur farið víða á atvinnumanaferli sínum síðustu ár en ekki er langt síðan að hann gekk til liðs við Rostov í Rússlandi. Viðar var keyptur til félagsins frá Maccabi Tel Aviv í fyrra haust og gerði þar af leiðandi fjögurra ára samning við félagið.

Viðar, sem er 29 ára í dag, hefur leikið 19 leiki í öllum keppnum fyrir Rostov og í þeim leikjum skorað fimm mörk.

Fótbolti.net segir að Viðar verði lánaður frá Rostov, en hann hefur meðal annars verið orðaður við félög sem leika í Skandinavíu, MLS-deildinni og í tyrknesku úrvalsdeildinni.

Sænski miðilinn Expressen segir í dag að sænska félagið Djurgården hafi spurst fyrir um möguleikann á að fá Viðar í sínar raðir.

Viðar þekkir vel til í Svíþjóð en hann lék við góðan orstrír með liði Malmö FF árið 2016 þar sem hann skoraði 17 mörk í 26 leikjum.

Sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason sló því svo upp í hlaðvarpsþættinum sínum Dr. Football í síðustu viku að tvö félög í bandarísku MLS-deildinni hefðu mikinn áhuga á Viðari.

Hjörvar sagðist hafa þær heimildir eftir aðila sem þekkir vel til í MLS-deildinni. Honum var tjáð að New York City FC og mögulega eitt annað lið í deildinni séu áhugasöm um þjónustu Viðars.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir