Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Viðar lék sinn fyrsta leik fyr­ir Rubin Kazan

Viðar Örn lék sinn fyrsta leik fyrir rússneska liðið Rubin Kazan í dag.

Mynd/Championat

Landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson lék sinn fyrsta leik fyrir rússneska liðið Rubin Kazan í dag þegar liðið vann 1-0 sigur á útivelli gegn Dinamo Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni.

Viðar Örn gekk í gær til liðs við Rubin Kazan frá Rostov á lánssamningi sem gildir út tímabilið, en hann var í dag settur beint inn í byrjunarliðið hjá Rubin Kazan.

Viðar Örn lék fyrri hálfleikinn í leiknum en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn.

Leikmaður Rubin Kazan fékk að líta rautt spjald í fyrri hálfleiknum og því má gera ráð fyrir að Viðari hafi verið fórnað í taktískri breytingu hjá knattspyrnustjóra félagsins.

Manni færri náði Rubin Kazan að skora sigurmark á fimmtu mínútu uppbótartímans í síðari hálfleik. Þar með er fyrsti sigur liðsins á leiktíðinni í höfn en liðið er með 4 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í deildinni.

Ef marka má tölfræði leiksins þá átti Viðar Örn eina skottilraun á mark Dinamo Moskvu í leiknum og 13 heppnaðar sendingar á samherja af 14 talsins.

Viðar Örn lék síðustu mánuði á lánssamningi hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Hammarby frá Rostov. Framherjinn átti góðu gengi að fagna með Hammarby á meðan hann lék þar en hann skoraði 7 mörk í 15 deildarleikjum með liðinu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun