Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Viðar Ari með mark í endurkomusigri – Fjórir Íslendingar byrjuðu hjá Álasund

Viðar Ari skoraði eitt mark þegar lið hans Sandefjord vann endurkomusigur í Noregi.

Viðar Ari. (t.v.) Mynd/Sandefjord

Viðar Ari Jónsson skoraði eitt mark fyrir Sandefjord í endurkomu liðsins gegn Strømmen í norsku 1. deildinni í dag. 

Lokatölur urðu 3-2 þar sem Viðar Ari skoraði annað mark Sandefjord-liðsins, sem var undir í hálfleik, 1-2.

Viðar Ari var þar með að skora sitt fyrsta deildarmark fyrir Sandefjord. Hann skoraði eitt mark fyrir liðið í norsku bikarkeppninni fyrr í mánuðinum.

Viðar, sem er 25 ára, gekk í raðir Sand­efjord frá Brann fyr­ir leiktíðina og gerði þriggja ára samning við félagið. Emil Pálsson leikur einnig fyrir Sandefjord en hann er að jafna sig á erfiðum meiðslum.

Sandefjord hefur byrjað leiktíðina vel og er í 2. sæti í norsku 1. deildinni eftir níu umferðir.

Fjórir Íslendingar byrjuðu hjá Álasund

Alls fjórir Íslendingar voru í byrjunarliði Álasund sem fór í heimsókn til Jerv í norsku 1. deildinni í dag. Leikurinn bauð ekki upp á nein mörk og markalaust jafntefli var því niðurstaðan.

Davíð Kristján Ólafsson var að byrja sinn fyrsta deildarleik fyrir Álasund eftir að hafa glímt við meiðsli upp á síðkastið og hann spilaði fyrstu 57. mínúturnar í leiknum. Þeir Daníel Leó Grétarsson, Aron Elís Þrándarson og Hólmbert Aron Friðjónsson byrjuðu einnig fyrir Álasund og spiluðu allan leikinn.

Álasund er á toppi norsku 1. deildarinnar með alls 23 stig og er taplaust eftir níu umferðir.

Í norsku úrvalsdeildinni sat þá Dagur Dan Þórhallsson allan tímann á varamannabekk Mjøndalen sem tapaði 1-4 fyrir Haugesund í dag. 

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun