Fylgstu með okkur:

Fréttir

Verður Ögmundur lærisveinn Gerrard?

Skoski knattspyrnurisinn Rangers er sagður hafa áhuga á að fá Ögmund Kristinssson til liðs við sig.

Skoski knattspyrnurisinn Rangers er sagður hafa áhuga á að fá Ögmund Kristinssson, markmann AE Larissa í Grikklandi, til liðs við sig. Sportime í Grikklandi greindi frá þessu.

Rangers er sagt vera að íhuga að fá Ögmund til að taka við hlutverki markvarðarins Allan McGregor, sem nú er orðinn 37 ára gamall. Steven Gerrard, fyrrum leikmaður Liverpool, stýrir Rangers, sem endaði í 2. sæti skosku úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu keppnistímabili.

Ögmundur á eitt ár eftir af samningi sínum við AE Larissa í Grikklandi en hann kom til félagsins í fyrrasumar á frjálsri sölu og stóð sig með prýði á nýafstaðinni leiktíð. Ögmundur hélt markinu tólf sinnum hreinu í 34 leikjum á leiktíðinni og lék hverja einustu mínútu í öllum keppnum. AE Larissa endaði í 10. sæti í grísku úrvalsdeildinni og Ögmundur var fyrir mánuði síðan valinn besti leikmaður liðsins á tímabilinu.

Íslendingavaktin skrifaði um það í síðasta mánuði að tyrkneska úrvalsdeildarfélagið Kayserispor væri með augastað á Ögmundi en það kom upprunalega fram í grískum fjölmiðlum.

Kayserispor sendi útsendara á leik AE Larissa í marsmánuði til að fylgjast með Ögmundi. Einnig var sagt að hann hafi komið til greina hjá gríska stórliðinu Olympiakos þegar liðið var í leit að markmanni í byrjun þessa árs.

Ögmundur sagði í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðasta mánuði að stærri liðin í grísku úrvalsdeildinni væru áhugasöm.

„Það er búið að vera einhver hiti. Umboðsmennirnir eru að reyna vinna vinnuna sína. Það er búið að vera áhugi frá stærri liðunum í Grikklandi. Ég get allavega sagt það en svo sér maður hvað gerist,“ sagði Ögmundur.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir