Fylgstu með okkur:

Fréttir

Tyrkneskt úrvalsdeildarfélag fylgist með Ögmundi

Félag í tyrknesku úrvalsdeildinni er sagt vera áhugasamt um landsliðsmarkvörðinn Ögmund Kristinsson.

Mynd/Fosonline

Tyrkneska úrvalsdeildarfélagið Kayserispor er sagt vera með augastað á Ögmundi Kristinssyni, landsliðsmarkverði. Þetta kemur fram í grískum fjölmiðlum.

Ögmundur, sem er 29 ára, leikur með AE Larissa í grísku úrvalsdeildinni og hefur á sinni fyrstu leiktíð með liðinu staðið sig mjög vel. Hann hefur náð að halda markinu hreinu í ellefu skipti í 33 leikjum á leiktíðinni. Aðeins einn leikur er eftir í deildinni og Ögmundur og félagar mæta Olympiakos á sunnudaginn.

Ögmundur kom til AE Larissa á frjálsri sölu í fyrra og gerði aðeins tveggja ára samning við félagið.

Kayserispor er sagt hafa sent útsendara á leik AE Larissa og OFI Crete þann 3. mars síðastliðinn til að fylgjast með Ögmundi og brasilískum framherja sem leikur fyrir OFI Crete. Ögmundur varði fjórar marktilraunir og hélt hreinu í þeim leik sem endaði með markalausu jafntefli.

Kayserispor er í 12. sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar af 18 liðum þegar fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu.

Ögmundur kom til greina hjá Olympiakos

Fjölmiðlar í Grikklandi segja einnig að Ögmundur hafi komið til greina hjá gríska stórliðinu Olympiakos þegar liðið var í leit að markmanni í janúar á þessu ári.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir