Fylgstu með okkur:

Fréttir

„Þurfti að uppgötva leið til að líða vel í eigin skinni og vera hamingjusöm á ný“

Gunnhildur Yrsa er frábær fyrirmynd innan vallar sem utan.

Mynd/Utah Royals

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, leikmaður Utah Royals í bandarísku atvinnumannadeildinni, gekk til liðs við samtökin Athlete Ally fyrir skömmu. Hún slæst í för með fjölmörgu íþróttafólki en markmið samtakanna er að opna umræðuna um stöðu hinsegin- og transfólks.

Á vefsíðu Athlete Ally skrifar Gunnhildur Yrsa grein og þar segir hún að staða hinsegin fólks á Íslandi sé mjög góð í samanburði við þau lönd sem hún hefur búið í á síðustu árum, en hún hefur leikið í þremur mismunandi heimsálfum.

„Persónulega hef ég átt góðu gengi að fagna en einnig orðið fyrir verulegum áföllum. Ég er umkringd og tilheyri stórri fjölskyldu sem sýnir mikinn stuðning. Mér var aldrei sagt hvað ég átti að verða eða hvernig ég ætti að haga mér. Þrátt fyrir það, þá hef ég sögu að segja,“ skrifar Gunnhildur.

„Ég var feimið barn sem var heltekið af íþróttum. Ég vildi alltaf vera í fótboltatreyjum og helst með hárband á hausnum til að halda hárinu í burtu. Ég var ekki eins og flestar stelpur en mér var alveg sama. Samfélagið hafði engin áhrif á mig fyrr en ég var orðin unglingur. Þá fóru hlutirnir að breytast. Ég fór að velta því fyrir mér hvað öðrum fannst um mig og það varð til þess að mér fór að líða illa. Mér fannst ég ekki falla inn í hópinn.“

„Þá fór ég að breyta útliti mínu í takt við þann ramma sem samfélagið setti á þeim tíma. Ég fór að greiða mér, nota snyrtivörur og fór í gallabuxur eins allar hinar stelpurnar í bekknum mínum voru í. Ég fór að láta eins og ég hefði ekki svona mikinn áhuga á fótbolta, því flestar stelpur á mínum aldri voru hættar. Allt þetta gerðist án þess að ég pældi eitthvað í því. Ég var alltaf ánægð með sjálfa mig og hver ég var, en af einhverjum ástæðum breyttist það. Með þessari breytingu kom óhamingjan og það tók mig nokkur ár að vinna mig út úr því. Ég þurfti að berjast á móti og uppgötva leið til að líða vel í eigin skinni og vera hamingjusöm á ný.“

„Í dag er ég ánægð með þann stað sem ég er komin á. Ég get nú sagt hlutina upphátt án þess að finna fyrir ótta. Í dag get ég elskað manneskju af hvaða kyni sem er. Ég þarf ekki að vera und­ir einhverjum for­merkj­um en það tók mig töluverðan tíma að átta mig á því.“

„Ég vil vera fyrirmynd fyrir systkini mín, fyrir unga fólkið og sýna þeim að það skiptir engu máli hver þau eru. Þau eiga skilið að vera áhyggjulaus og hamingjusöm með sjálfan sig. Trúið mér, ég er það.“

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir