Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Þrjú íslensk mörk hjá Álasund á sjö mínútum

Þrír Íslendingar voru á skotskónum fyrir Álasund í norsku B-deildinni í dag.

Aron Elís skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu fyrir Álasund í dag. Mynd/Aftenposten

Aron Elís Þrándarson, Daníel Leó Grétarsson og Hólmbert Aron Friðjónsson voru allir á skotskónum með Álasund sem vann 4-2 sigur í norsku B-deildinni í dag.

Álasund var að taka á móti Skeid í dag og á sjö mínútna kafla í fyrri hálfleiknum skoruðu allir Íslendingarnir fyrir Álasund. Aron Elís skoraði með skallamarki á 13. mínútu, Daníel Leó skoraði á 21. mínútu og Hólmbert Aron skoraði þá skallamark á 23. mínútu. Þrjú íslensk mörk á stuttum kafla.

Aron Elís og Daníel Leó spiluðu allan leikinn fyrir Álasund á meðan Hólmbert fór af velli í leikhléi. Davíð Kristján Ólafsson var ekki í leikmannahópi Álasund.

Skeid minnkaði muninn í tvö mörk fimm mínútum fyrir leikhlé og Stale Sæthre gerði fjórða mark Álasund snemma í seinni hálfleik eftir undirbúning frá Aroni Elís. Skeid skoraði þá síðasta mark leiksins á 72. mínútu. 4-2 sigur staðreynd hjá Íslendingaliðinu Álasund.

Álasund situr á toppi norsku B-deildarinnar með tíu stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar í deildinni.

Tap hjá Aroni Sigurðar og Kristjáni Flóka – Viðar Ari kom við sögu

Aron Sigurðarson og Kristján Flóki Finnbogason léku báðir í tapi Start í norsku B-deildinni í dag.

Start fór í heimsókn til Sandnes Ulf og tapaði leiknum 2-0. Aron spilaði allan leikinn og Kristján Flóki kom inn á sem varamaður á 71. mínútu. Guðmundur Andri Tryggvason var ónotaður varamaður hjá Start í dag.

Aron hafði fyrir leikinn í dag gert tvö mörk í síðustu tveimur leikjum Start.

Start er með sex stig í 10. sæti norsku B-deildarinnar.

Viðar Ari Jónsson byrjaði á varamannabekknum og spilaði síðustu mínúturnar er Sandefjord gerði jafntefli við Tromsdalen, 3-3, í norsku B-deildinni í dag. Sandefjord er með átta stig, tveimur stigum minna en Álasund.

Leikmenn sem komu ekki við sögu

Oliver Sigurjónsson var ekki í leikmannahópi þegar Bodø/Glimt gerði 1-1 jafntefli við Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni í dag. Bodø/Glimt er á toppi deildarinnar ásamt Molde með tíu stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

Arnór Smárason var sömuleiðis ekki í leikmannahópi Lillestrøm sem laut í lægra haldi fyrir Molde, 0-2, í norsku úrvalsdeildinni. Lillestrøm er í 11. sæti deildarinnar með fjögur stig.

Dagur Dan Þórhallsson kom þá ekki við sögu með Mjøndalen í 1-1 jafntefli gegn Tromso í norsku B-deildinni í dag.

Höskuldur Gunnlaugsson sat einnig allan tímann á bekknum hjá Halmstads sem gerði 2-2 jafntefli við Syrianska í sænsku B-deildinni. Nói Snæhólm Ólafsson kom inn á sem varamaður fyrir Syrianska á 77. mínútu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun