Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Þrjú Íslend­ingalið komust áfram – Albert var á skotskónum

Þrjú Íslendingalið komust í kvöld áfram í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Albert Guðmundsson var þá á skotskónum fyrir AZ Alkmaar.

ÍV/Getty

Sex Íslend­ingalið voru á ferðinni í umspili um laust sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Þrjú þeirra komust áfram, Astana, Malmö og AZ Alkmaar, en þrjú voru slegin út, AIK, BATE Borisov og PAOK

Rúnar Már Sigurjónsson lék allan leikinn fyrir lið sitt Astana sem tapaði 2-0 fyrir BATE Borisov í seinni leik liðanna en Astana vann fyrri leikinn 3-0 og sigrar því samanlagt 3-2. Willum Þór Willumsson leikur með BATE og hann kom inn á sem varamaður á 74. mínútu leiksins.

Kolbeinn Sigþórsson og samherjar hans í AIK voru slegnir út eftir 4-1 tap á móti Celtic í seinni liðanna. Celtic vinnur samanlagt 6-1 eftir að hafa unnið fyrri leikinn 2-0. Kolbeinn lék fyrstu 62. mínúturnar fyrir AIK í leiknum í kvöld.

AZ Alkmaar, lið Alberts Guðmundssonar, hafði betur gegn Royal Antwerp, 4-1, eftir framlengingu í síðari leik liðanna. Það var ekki fyrr en þegar aðeins ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma þegar Calvin Stengs tryggði AZ Alkmaar framlengingu.

Albert hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á sem varmaður í hálfleik. Hann skoraði fjórða og síðasta mark AZ Alkmaar á 113. mínútu. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli og AZ Alkmaar vinnur því einvígið samanlagt 5-2.

Uppfært: Markið hans Alberts í leiknum í kvöld:

Arnór Ingvi Traustason sat allan tímann á varamannabekk Malmö þegar liðið fór með 1-0 sigur af hólmi gegn Bnei Yehuda Tel Aviv í síðari leik liðanna. Malmö sigraði fyrri leikinn 3-0 og sigrar samanlagt 4-0.

Þá var Sverrir Ingi Ingason einnig ónotaður varamaður hjá liði sínu PAOK þegar liðið var slegið nokkuð óvænt út gegn Slovan Bratislava. PAOK sigraði leikinn 3-2 en það dugði liðinu ekki áfram í keppninni, því Slovan Bratislava fer áfram á fleiri skoruðum á útivelli en PAOK tapaði fyrri leiknum 1-0.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið