Fylgstu með okkur:

Fréttir

Þrír Íslendingar í liði árs­ins

Daníel Leó, Aron Elís og Aron Sigurðarson eru í liði árs­ins í norsku 1. deildinni.

Íslensku leikmennirnir Daníel Leó Grétarsson, Aron Elís Þrándarson og Aron Sigurðarson eru allir í liði árs­ins í norsku 1. deildinni hjá sjónsvarpsstöðinni Eurosport.

Daníel Leó og Aron Elís hafa átt mjög stöðugt og gott tímabil með Álasundi sem hef­ur tryggt sér sæti í efstu deild og er í efsta sæti norsku 1. deildarinnar með 76 stig þegar aðeins einni umferð er ólokið. Lokaumferðin fer fram á morgun og þar mun Álasund taka á móti Sandefjord, sem er einnig öruggt með sæti í efstu deild.

Þá hefur Aron Sigurðarson verið sjóðheitur með Start á tímabilinu. Fjölnismaðurinn hefur komið að 26 mörkum fyrir Start á leiktíðinni, skorað þrettán mörk og lagt upp önnur þrettán, sem er stórkostleg tölfræði, en hann er fimmti markahæsti leikmaður deildarinnar. Start, sem er í þriðja sæti deildarinnar, mun koma til með að fara í umspil um þriðja og síðasta lausa sætið í norsku úrvalsdeildinni.

Það var sérfræðingurinn Amund Lutnæs sem valdi lið ársins fyrir Eurosport og hver og einn leikmaður í liðinu fær umsögn hjá honum:

Daníel Leó: Hann var fyrstur á blað hjá mér þegar ég var að byrja að velja liðið. Einn helsti burðarásinn í bestu vörn deildarinnar og er lykilinn að góðum árangri liðsins. Hann verður að vera í liði Álasundar í norsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Eflaust eru nokkur lið sem eru áhugasöm, en hann hefur sloppið vel við meiðsli á tímabilinu eftir erfitt tímabil í fyrra.

Aron Elís: Mögulega besti leikmaður deildarinnar. Leikmaður sem getur spilað nokkrar stöður á vellinum og fer að mínu mati sjálfkrafa inn í liðið. Þegar hann er með boltann þá horfi ég með bros á vör. Frábær leikmaður í þessari deild.

Aron Sigurðarson: Var í frystikistunni en hefur blómstrað undir stjórn Jóhannesar Harðarsonar. Markahæsti leikmaður Start og hefur skilað mörgum sigrum upp á sitt eins­dæmi. Talar ekki í fyrirsögnum, heldur lætur til sín taka inn á vellinum. Hann hefur gert deildina miklu betri.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir