Fylgstu með okkur:

Fréttir

Þó nokkr­ir að leita sér að nýj­um liðum

Þó nokkrir íslenskir atvinnumenn í knattspyrnu eru samningslausir um þessar mundir og í leit að nýjum vinnuveitendum.

ÍV/Samsett

Nú er sá tími sem leikmenn geta fundið sér ný lið til að spila með. Þó nokkrir íslenskir atvinnumenn í knattspyrnu eru samningslausir um þessar mundir og í leit að nýjum vinnuveitendum. Íslendingavaktin tekur hér saman lista yfir þá leikmenn sem eru samningslausir.

Birkir ekki lengur hjá Al-Arabi

ÍV/Getty

Al-Arabi í Katar þakkaði Birki Bjarnasyni fyrir hans framlag eftir að ljóst varð að Aron Einar Gunnarsson væri búinn að jafna sig af meiðslum. Birk­ir kom til liðsins á stuttum samningi, í þeim tilgangi að fylla í skarð Arons Ein­ars.

Lítið hefur verið fjallað um mögu­lega áfangastaði Birkis á síðustu dögum en eitt er nokkuð víst að það eru lið víðsvegar um heim sem eru áhugasöm um að fá hann til liðs við sig.

Birkir var ekki langt frá því að semja við tyrkneska úrvalsdeildarliðið Denizlispor í fyrrasumar og var hann meðal annars á síðasta ári orðaður við liðin Stoke City, Derby County, SPAL, Genoa, FC Kaup­manna­höfn, Midtjyl­l­and og Fenerbahçe.

Búast má við því að Birkir haldi á óvenju­leg­ar slóðir í stað þess að fara aftur til Englands, Ítalíu eða til Norðurlandanna – en það aldrei að vita hvað Akureyringurinn ákveður að gera.

Ragnar til Tyrklands eða Danmerkur? Eða jafnvel til Asíu?

Mynd/Skjáskot úr fréttaþætti Fotomac í Tyrklandi.

Ragnar Sigurðsson leitar sér að nýju liði eftir að hafa fengið sig lausan frá rússneska liðinu Rostov fyrir tveimur vikum. Fylkismaðurinn bíður eftir rétta tilboðinu og er opinn fyrir flestu, meðal annars Asíu, en ætlar ekki að flýta sér að taka ákvörðun um næsta áfangastað. Ragnar var í viðtali í helgarblaði Morgunblaðsins um síðustu helgi.

„Ég er alveg til í að prófa nýja hluti og spila í Asíu sem dæmi. Eins set ég það ekki fyrir mig að vera áfram í Rússlandi og þá leið mér alltaf mjög vel í Skandinavíu þegar ég spilaði þar þannig að það má alveg segja sem svo að ég sé í raun opinn fyrir nánast öllu,“ sagði Ragnar í viðtali við Morgunblaðið.

Ragnar hefur verið orðaður við end­ur­komu til FC Kaupmannahafnar í Danmörku og tyrkneskir fjölmiðlar fullyrða að hann eigi í viðræðum við tyrkneska úrvalsdeildarfélagið Trabzonspor um að ganga í raðir þess. Gaziantep FK í sömu deild ætl­ar að gera allt sem það get­ur til að krækja í Ragnar og þá hefur Fenerbahçe, eitt besta lið deildarinnar, rennt hýru auga til hans, ásamt Íslendingaliðinu CSKA Moskvu í Rússlandi, samkvæmt upplýsingum sem Íslendingavaktin hefur undir höndum.

„Mér leið mjög vel í Kaupmannahöfn og það er ein af mínum uppáhaldsborgum í dag. Eins og ég sagði áðan er ég opinn fyrir flestu og ég er með nokkur tilboð í höndunum, meðal annars frá Skandinavíu og Tyrklandi,“ sagði Fylkismaðurinn ennfremur í samtali við Morgunblaðið.

Ingvar ekki áfram hjá Viborg

Ingvar ákvað að framlengja ekki við Viborg. ÍV/Getty

Njarðvíkingurinn Ingvar Jónsson er samn­ings­laus eft­ir að hafa ákveðið að end­ur­nýja ekki samn­ing sinn við danska B-deildarliðið Viborg. Samningur hans við danska liðið rann út 31. desember.

Ingvar segist vera að skoða sína möguleika og fljótlega ættu mál­in að skýr­ast betur hvað fram­haldið varðar.

,,Samningur minn er runninn út hjá Viborg í Danmörku. Ég hafnaði framlengingu þar og er nú að skoða mína möguleika. Þetta skýrist vonandi bráðlega,“ sagði Ingvar í samtali við Íslendingavaktina í dag.

Ingvar hefur verið orðaður við bæði FH og Stjörnuna, en sá möguleiki virðist vera fyrir hendi að hann verði áfram á Norðurlöndunum.

Hvar endar Guðmundur?

Mynd/gratistidning.com

Guðmundur Þórarinsson ákvað að end­ur­nýja ekki samn­ing sinn við Norrköping og leitar sér nú að nýju liði eftir farsælan tíma í Svíþjóð.

Sögusagnir hafa verið á kreiki þess efnis að Guðmundur hafi samþykkt að ganga í raðir búlgarska úrvalsdeildarliðsins Levski Sofia. Búlgarska íþróttablaðið Temasport kvað hins vegar niður þær sögu­sagn­ir.

Vitað er af áhuga frá sænska meistaraliðinu Djurgården og hollenska liðinu Heerenveen, sem hafa borið ví­urn­ar í Guðmund að und­an­förnu. Þó nokkur áhugi er þá til staðar í bæði Tyrklandi og Grikklandi.

Lið í Pepsi Max-deildinni sýna Atla áhuga

Mynd/f-b.no

Atli Barkarson, ungur og efnilegur bakvörður frá Húsavík, leikur ekki áfram með norska C-deildarliðinu Fredrikstad, en Atli hefur ákveðið að endursemja ekki við liðið, sem mistókst að komast upp deild á síðustu leiktíð.

Atli er 18 ára gamall og kom í fyrrahaust til Fredrikstad frá enska liðinu Norwich, þar sem hann lék með ung­linga- og varaliðum.

Nokkur lið í Pepsi Max-deildinni eru áhugasöm um að fá Atla í sínar raðir fyrir næsta sumar, samkvæmt heimildum Íslendingavaktarinnar.

Frederik Schram er á lausu

Frederik í Pepsi Max-deildina? Mynd/sn.dk

Danska úrvalsdeildarliðið Sønd­erjyskE ákvað að segja skilið við Frederik Schram í síðasta mánuði. Samn­ing­ur hans við liðið er runninn út og verður ekki fram­lengd­ur.

Frederik kom til Sønd­erjyskE frá Rosk­ilde síðasta sumar en var síðan sendur á lánssamning til Lyngy í dönsku úrvalsdeildinni, án þess að spila einn leik fyrir liðið.

Nú gætu lið í Pepsi Max-deildinni séð sér leik á borði og tryggt sér þjónustu Frederiks, sem var meðal annars í ís­lenska landsliðshópn­um á heims­meist­ara­mót­inu í Rússlandi árið 2018. Frederik er þó líklegastur til þess að semja við lið í dönsku B-deildinni.

Á næstu dögum verða gerð skil um íslenska atvinnumenn í knattspyrnu sem gætu yfirgefið sín félög. Ef þú lumar á góðum upplýsingum, þá má endilega senda línu á [email protected], eða í innhólf okkar á Facebook eða Twitter. 

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir