Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Theodór Elmar spilaði í góðum sigri í Tyrklandi

Theodór Elmar og samherjar hans í Gazisehir Gaziantep unnu í kvöld góðan útisigur í Tyrklandi.

Mynd/Guncelgazete

Theodór Elmar Bjarnason og samherjar hans í tyrkneska liðinu Gazisehir Gaziantep unnu í kvöld góðan útisigur gegn Balikesirspor í tyrknesku B-deildinni. Úrslitin urðu 1-2 og kom annað markið hjá Gaziantep undir lok leiksins.

Theodór Elmar var á miðjunni hjá Gaziantep í leiknum og lék allar mínúturnar.

Gaziantep komst yfir á 20. mínútu og Balikesirspor náði að jafna leikinn snemma í seinni hálfleik en það var svo Moussa Sow sem skoraði sigurmarkið fyrir Gaziantep þegar ein mínúta var liðin af uppbótartíma seinni hálfleiks.

Lið Theodórs, Gazişehir Gaziantep, er hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í umspili um laust sæti í tyrknesku úrvalsdeildinni að ári. Liðið er í 4. sæti með 56 stig þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Efstu tvö liðin í deildinni fara beint upp í tyrknesku úrvalsdeildina á meðan liðin í 3.-6. sæti fara í umspil.

Genclerbirligi, lið Kára Árnasonar, spilaði einnig í tyrknesku B-deildinni í dag en Kári var ekki í leikmannahópi liðsins. Liðið var að spila toppbaráttuslag á heimavelli við Denizlispor og fór svo lokum að Genclerbirligi tapaði leiknum 0-3. Genclerbirligi er á toppi deildarinnar með 67 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun