Fylgstu með okkur:

Fréttir

Theodór Elmar tjáir sig um burstamálið

Tyrkneskir miðlar leituðu til Theodórs Elmars vegna „hið svokallaða „burstamáls“ og báðu hann að segja álit sitt.

Mynd/Samsett

Theodór Elmar Bjarnason, leikmaður tyrkneska félagsins Gazişehir Gaziantep, tjáði sig um „hið svokallaða „burstamál“ í tyrkneskum miðlum í dag.

Allt varð bókstaflega vitlaust á samfélagsmiðlum í Tyrklandi í gær eftir að ferðamaður frá Belgíu, að nafni Corentin Siamang, beindi bláum uppþvotta­bursta að Emre Belözoglu, fyrirliða tyrkneska landsliðsins, eins og hljóðnema, þegar fréttamenn frá Tyrklandi umkringdu fyrirliðann til að taka viðtal við hann. Uppátækið hjá Belganum skapaði mikla reiði á samfélagsmiðlum í Tyrklandi. Lestu meira um málið hér. 

Tyrkneska landsliðið spilar á morgun við Ísland í undankeppni Evrópumótsins 2020 og kom til landsins í gær um flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tyrkneska landsliðið varð í gær fyrir töfum í Leifsstöð og þurfti að fara í sérstakt öryggiseftirlit og vegabréfaskoðun, sem tók rúmlega tvær klukkustundir. Glappaskotið hjá Belganum var því aðeins til að bæta gráu ofan á svart hjá fólkinu í Tyrklandi sem hélt um langan tíma að maðurinn með burstann væri frá Íslandi.

Tyrkneskir miðlar leituðu til Theodórs Elmars, sem hefur leikið í Tyrklandi síðustu ár, vegna málsins og báðu hann að segja sitt álit.

„Ekki veit af hverju þeir lentu í miklum töfum, en samkvæmt því sem ég hef heyrt var flugvöllurinn í Konya, þaðan sem tyrkneska landsliðið kom, ekki alþjóðlegur flugvöllur og sérstakt öryggiseftirlit var því nauðsynlegt. Ég er þó ekki að kaupa það. Þeir sem ákváðu þetta eftirlit áttu að vita að þetta voru landsliðsmenn frá Tyrklandi,“ sagði Theodór Elmar um töf tyrkneska landsliðsins í gær.

„Það segja margir að maðurinn með burstann sé ferðamaður en ef hann kemur frá Íslandi þá er hann ekki fulltrúi þjóðarinnar. Enginn á landinu styður þetta uppátæki því þetta var mikið virðingarleysi,“ sagði Theodór Elmar um manninn með burstann.

„Ég tel að að allir á Íslandi beri virðingu fyrir fólki frá Tyrklandi og tyrkneska landsliðinu. Ég vonast eftir góðum leik á morgun. Ég elska Tyrkland og fólkið sem býr þar,“ bætti Theodór Elmar ennfremur við.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir