Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Theodór Elmar spilaði í stórsigri og fer í umspil

Theodór Elmar og samherjar hans í Gaziantep eru komnir í um­spil um sæti í tyrknesku úrvalsdeildinni eftir stórsigur í dag.

Theodór Elmar í leik með Gazisehir Gaziantep.

Gazisehir Gaziantep er komið í um­spil um sæti í tyrknesku úrvalsdeildinni eftir að hafa unnið 6-1 stórsigur gegn Karabukspor á útivelli í tyrknesku B-deildinni í dag. Theodór Elmar Bjarnason leikur með Gaziantep.

Theodór Elmar lék allan leikinn í 6-1 sigrinum á Karabukspor í dag en hann spilaði á miðjunni hjá Gaziantep í leiknum. Það voru gestirnir í Gaziantep sem komust yfir með marki strax á 8. mínútu leiksins þar sem Erhan Celenk fékk fína sendingu í gegn og var þá einn gegn markamanninum og kom knettinum í markið. Nokkru síðar handlék varnarmaður Gaziantep knöttinn innan teig og vítaspyrna var því dæmd. Karabukspor náði að jafna metin úr spyrnunni en leikurinn var ekki lengi jafn, því tveimur mínútum síðar skoraði Rydell Poepon laglegt mark með hjólhestaspyrnu. Liðið bætti síðan þriðja markinu við rúmu korteri síðar þegar Ugur Kuru skoraði skallamark eftir fast leikatriði.

Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik skoraði Kossi Segbefia fjórða mark Gaziantep, rétt áður en Kenan Özer gerði það fimmta fyrir liðið á 59. mínútu. Þegar korter lifði leiks gerði Gökhan Alsan endanlega út um leikinn er hann skoraði sjötta mark liðsins. 6-1 stórsigur staðreynd hjá Theodóri Elmari og félögum hans í Gaziantep.

Sigurinn þýðir að Gaziantep endar í 5. sæti deildarinnar með 59 stig en liðin í 3.-6. sæti fara í umspil um sæti í tyrknesku úrvalsdeildinni.

Gaziantep mun mæta Osmanlıspor, sem lenti í 4. sætinu, og sigurvegarinn úr því einvígi mun annað hvort mæta Hatayspor eða Adana Demirspor í hreinum úrslitaleik um laust sæti í tyrknesku úrvalsdeildinni að ári.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun