Fylgstu með okkur:

Fréttir

Theodór Elmar orðinn leikmaður Akhisarspor

Theodór Elmar hefur verið kynnt­ur sem nýr leikmaður tyrkneska 1. deildarliðsins Akhisarspor.

Mynd/Akhisarspor

Theodór Elmar Bjarnason var í dag kynnt­ur sem nýr leikmaður tyrkneska 1. deildarliðsins Akhisarspor. Hann kemur til félagsins frá Gazişehir Gaziantep í Tyrklandi.

Theodór Elmar skrifaði undir samning til tveggja ára, eða til sumarsins 2021.

Theodór Elmar lék með Gazişehir Gaziantep síðan í janúar og komst með liðinu upp í efstu deild, en þar áður hafði hann í nóvember á síðasta ári rift samningi sínum við tyrkneska 1. deildarliðið Elazig­spor vegna vangreiddra launa.

Akhisarspor féll úr tyrknesku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og mun leika í tyrknesku 1. deildinni á komandi leiktíð. Liðið er frá borginni Akhisar með um 100 þúsund íbúa og er um 100 km norðaustur af Izmir, sem er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Theodór Elmar mun ásamt fjöldskyldu sinni flytjast búferlum til Izmir.

Theodór Elmar, sem er 32 ára, á 41 leik að baki með íslenska landsliðinu og hefur í þeim skorað eitt mark. Hann hefur á atvinnumannaferli sínum leikið með liðunum Celtic í Skotlandi, Lyn í Nor­egi, Gauta­borg í Svíþjóð, AGF í Danmörku, Elazig­spor og Gaziantep í Tyrklandi.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir