Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Theodór Elmar lagði upp og fór upp um deild

Theodór Elmar og félagar í Gazisehir Gaziantep tryggðu sér í kvöld sæti í efstu deild Tyrklands eftir sigur í vítakeppni.

Mynd/Twitter

Theodór Elmar Bjarnason lagði upp eina mark Gazisehir Gaziantep gegn Hatayspor í umspili um þriðja og síðasta lausa sætið í tyrknesku úrvalsdeildinni í Istanbul í kvöld. Úrslitin réðust í vítakeppni en Theodór Elmar lék allan leikinn í kvöld.

Gaziantep, lið Theodórs Elmars, endaði í 5. sæti í tyrknesku B-deildinni á leiktíðinni og liðið hafði betur gegn Osmanlispor í tveimur viðureignum í síðustu viku. Það einvígi var spennandi en vítakeppni þurfti í seinni leiknum til að skera úr um sigurvegara. Gaziantep hafði þar betur, 9-8, þar sem Theodór skoraði úr sinni spyrnu.

Gökhan Alsan kom Gaziantep í forystu rétt fyrir leikhlé í leiknum í kvöld þegar hann skoraði skallamark af stuttu færi eftir frábæran undirbúning frá Theodóri Elmari. Það mark má sjá neðst í fréttinni.

Í síðari hálfleiknum á 82. mínútu náði Hatayspor að jafna metin í 1-1 þar sem sóknarmaður liðsins skoraði úr frákasti eftir markvörslu og því þurfti að framlengja leikinn. Það dugði hins vegar ekki að bæta hálftíma við leiktímann, grípa þurfti til vítaspyrnukeppni til að ráða fram úrslit.

Gaziantep hafði betur í vítakeppninni, 5-3, með því að skora úr öllum spyrnum sínum. Liðið leikur því í tyrknesku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið