Fylgstu með okkur:

Fréttir

Theodór Elmar fær­ir sig um set í Tyrklandi

Allt útlit er fyrir að Theodór Elmar færi sig um set í Tyrklandi.

Theodór Elmar. ÍV/Getty

Theodór Elmar Bjarnason er að skipta um fé­lag í Tyrklandi samkvæmt tyrkneska blaðamanninum Serkan Akkoyun.

Samkvæmt Akkoyun, sem starfar fyrir tvo stóra fjölmiðla í Tyrklandi, TRT Spor og Sabah Spor, mun Theodór Elmar ganga til liðs við tyrkneska 1. deildarliðið Akhisarspor á næstu dögum og segja þar með skilið við Gazişehir Gaziantep þar sem hann hefur leikið síðan í janúar.

Í fyrradag birtist frétt frá staðarmiðlinum gaziantep27 þess efnis að Theodór Elmar hafi yfirgefið æfingabúðir Gaziantep til að semja við Akhisarspor um kaup og kjör.

Akhisarspor-liðið er frá borginni Akhisar með um 100 þúsund íbúa og er um 100 km norðaustur af Izmir, sem er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Akhisarspor féll úr tyrknesku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og leikur því í tyrknesku 1. deildinni á næstu leiktíð.

Theodór Elmar og félagar hans í Gazişehir Gaziantep komust upp úr tyrknesku 1. deildinni á síðustu leiktíð með því að vinna Hatayspor 1-0 í hreinum úrslitaleik um þriðja og síðasta lausa sætið í tyrknesku úrvalsdeildinni. Theodór Elmar lagði upp sigurmarkið í þeim leik.

Theodór Elmar skrifaði í byrjun árs undir eins og hálfs ár samn­ing við Gaziantep en þar áður hafði hann í nóvember á síðasta ári rift samningi sínum við tyrkneska 1. deildarliðið Elazig­spor vegna vangreiddra launa.

Theodór Elmar, sem er 32 ára, á 41 leik að baki með íslenska landsliðinu og hefur í þeim skorað eitt mark. Hann hefur á atvinnumannaferli sínum leikið með liðunum Celtic í Skotlandi, Lyn í Nor­egi, Gauta­borg í Svíþjóð, AGF í Danmörku, Elazig­spor og Gaziantep í Tyrklandi.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir