Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Tekjurnar hjá Rúrik eru orðnar hærri í fyrirsætustörfunum en í fótboltanum

Rúrik er farinn að þéna hærri upphæðir fyrir fyrirsætustörf heldur en að leika sem atvinnumaður í fótbolta.

ÍV/Getty

Rúrik Gíslason var síðasta sunnudagskvöld gestur í þáttaröðinni Atvinnumennirnir Okkar á Stöð 2 sem Auðunn Blöndal stýrir.

Margt fróðlegt og skemmtilegt kom fram í þættinum, en Auðunn heimsótti Rúrik til Þýskalands þar sem hann býr og leikur með liði sínu Sandhausen ásamt því að sinna fyrirsætustörfum í frítíma sínum.

Fór ungur út í atvinnumennsku

Rúrik segir frá því í þættinum að það hafi verið erfitt fyrir sig að fara ungur að árum út í atvinnumennsku. Á sextánda aldursári gekk hann til liðs við Anderlecht í Belgíu og þar upplifði hann töluverðan einmannaleika.

„Þetta var þannig að allir vinir mínir voru að byrja í menntaskóla og ég átti kærustu á Íslandi. Það var margt sem orsakaði það að ég fékk mikla heimþrá en á endanum fékk ég brjósklos í bakið og þá var lítið annað að gera en að fara heim með skottið á milli fótanna,“ sagði Rúrik.

Rúrik lék nokkra leiki með HK sumarið 2005 en um haustið sama ár gekk hann til liðs við enska liðið Charlton.

Rúrik lék í tvö ár með Charlton en síðasta áratuginn hefur hann verið atvinnumaður hjá liðunum Viborg, OB, FC Kaupmannahöfn, Nurnberg og nú hjá Sandhausen.

Tekjurnar hærri í fyrirsætustörfunum heldur en í fótboltanum

Rúrik spilaði fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi í fyrra og var án nokkurs vafa langmest í sviðsljósinu af öllum leikmönnum Íslands á mótinu.

Rúrik fékk mikla athygli á samfélagsmiðlum, þá aðallega á Instagram og frá fólki í Suður-Ameríku. Rúrik birtist á skjám hjá þeim sem horfðu á leik Íslands og Argentínu á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi um miðjan júnímánuð í fyrra.

Upphaflega var það leikkona frá Argentínu sem benti fylgjendum sínum á það hvað Rúrik væri myndalegur en það vatt síðan upp á sig og hann fór úr því að hafa 36 þúsund fylgjendur á Instagram upp í 1,3 milljónir fylgjenda.

Gerbreyting á fylgjendatölum Rúriks varð til þess að hann fékk orðið meira greitt fyrir fyrirsætustörf heldur en að spila sem atvinnumaður í fótbotla.

„Í síðasta mánuði var ég með meiri tekjur í tengslum við fyrirsætustörfin heldur en fótboltann,“ sagði Rúrik í þættinum.

Monika Kistermann, umboðsmaður Rúriks í fyrirsætustörfum, sagði þá í þættinum að hann sé orðinn betri en David Beckham í þessum geira.

Vísir birti á dögunum innslag úr þættinum þar sem fjallað er um fyrirsætustörf Rúriks. 

Mikil vonbrigði að vera ekki í hópnum á Evrópumótinu í Frakklandi

Aðspurður um mestu vonbrigðin á ferlinum þá sagði Rúrik að það hefðu verið mikil vonbrigði fyrir sig að vera ekki valinn í landsliðshóp Íslands fyrir Evrópumótið í Frakklandi árið 2016.

„Það er eitt augnablik sem kemur upp í hugann. Það er þegar ég missti af Evrópumótinu og var ekki valinn í hópinn. Ég fékk skilaboð frá Knattspyrnusambandinu að ég yrði ekki hópnum hálftíma áður en hann var tilkynntur. Þetta var smá skellur og ég brotnaði gjörsamlega niður. Ég var í rauninni eins og lítið barn,“ sagði Rúrik.

Rúrik segir þá að það verið mikill persónulegur sigur fyrir sig að fara á Heimsmeistaramótið í Rússlandi eftir að hafa misst af Evrópumótinu.

Mikið af óvenjulegum uppákomum hjá aðdáendum

Auðunn spurði Rúrik í þættinum hvort hann fái mikið af skilaboðum sent til sín á samfélagsmiðlum.

„Já, en þetta hefur róast aðeins en ég fæ enn mikið af skilaboðum og ég hef bara gaman af þeim,“ svaraði Rúrik.

Auðunn spyr í framhaldinu hvort einhverjar nektarmyndir hafi verið í þessum skilaboðum sem hann hefur fengið.

„Já, ég fæ mjög mikið af allskonar myndum, og þá einnig kynfæramyndir af báðum kynjum. Það er mjög óviðeigandi hjá fólki að vera senda slíkar myndir en þetta bítur ekkert á mig og mér líður ekki illa yfir þessu. Ég á þá enga ástæðu til að svara þessu.“

Eitt skemmtilegt dæmi var tekið síðan tekið fram í þættinum en maður út í heimi hefur upp á síðkastið fótosjoppað Rúrik inn á myndir með sér. Hér að neðan má sjá eina mynd af því.

Rúrik hefur þá lent í einu leiðinlegu atviki í kringum heimilið sitt í Þýskalandi.

„Eitt sinn var bankað upp á heima hjá mér og ég kem til dyra og sá sem var í dyragættinni var kominn til að stunda með mér munnmök, en ég sagði honum að ég myndi hringja í lögregluna ef hann færi ekki í burtu,“ sagði Rúrik.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun