Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Tap í fyrsta leik Viðars

Viðar Örn varð að sætta sig við tap í fyrsta leik sínum með Yeni Malatyaspor.

Mynd/@yenimalatyaspor

Viðar Örn Kjartansson lék síðasta hálftímann eða svo fyrir tyrkneska liðið Yeni Malatyaspor sem tapaði á útivelli fyrir Alanyaspor, 2-1, í tyrknesku úrvalsdeildinni í dag.

Þetta var fyrsti deildarleikur Viðars fyrir sitt nýja lið en hann gekk til liðs við Yeni Malatyaspor frá Rostov sem lánsmaður í síðasta mánuði. Hann hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á sem varamaður á 57. mínútu, í stöðunni 2-0.

Þegar Viðar var búinn að vera inni á vellinum í þrjár mínútur þá lét leikmaður Alanyaspor reka sig af velli með beint rautt spjald. Yeni Malatyaspor náði ekki að nýta sér liðsmuninn en minnkaði þó muninn niður í eitt mark undir leikslok.

Yeni Malatyaspor er um miðja deild í tyrknesku úrvalsdeildinni og situr í 10. sæti deildarinnar með 24 stig eftir 19 umferðir.

Í tyrknesku B-deildinni lék Theodór Elmar Bjarnason allan leikinn fyrir Akhisarspor þegar liðið beið lægri hlut fyrir Altinordu, 2-0, á útivelli. Akhisarspor er í 8. sæti eftir 20 leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun