Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Töp hjá bæði Aroni og Gylfa

Aron Einar og Gylfi Þór voru báðir í tapliðum í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Aron lék allan tímann í tapi Cardiff í dag. ÍV/Getty

Burnley og Cardiff City mættust í Íslendingaslag í ensku úrvalsdeildinni í dag. Jóhann Berg Guðmundsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Burnley á meðan Aron Einar Gunnarsson spilaði allar mínúturnar fyrir Cardiff.

Nýsjálendingurinn Chris Wood kom Burnley yfir eftir hálftíma leik með skallamarki upp úr hornspyrni og bætti síðan sínu öðru marki við í uppbótartíma í seinni hálfleik. Flottur 2-0 heimasigur hjá Burnley.

Burnley fer upp í 14. sæti deildarinnar og er með 39 stig eftir sigurinn í dag en Cardiff situr enn í 18. sæti, í fallsæti, með 28 stig og alls fimm stigum frá öruggu sæti.

Gylfi og félagar töpuðu óvænt

Gylfi Þór Sigurðsson og liðsfélagar hans í Everton töpuðu óvænt fyrir föllnu liði Fulham, 2-0, í ensku úrvalsdeildinni í dag. Gylfi var í byrjunarliði  Everton en var tekinn af velli á 74. mínútu.

Markalaust var í leikhléi en í byrjun seinni hálfleiks, á 46. mínútu, skoraði Fulham og náði forystu. Tom Cairney gerði markið en afgreiðsla hans var lagleg eftir góðan undirbúning frá Ryan Babel.

Tæpum tuttugu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma tvöfaldaði Ryan Babel forystuna fyrir Fulham. Þar við sat í markaskorun og Fulham-menn fóru með sanngjarnan 2-0 heimasigur af hólmi.

Everton hefði getað tryggt sér 7. sæti deildarinnar með sigri í dag en eftir tapið í dag er liðið í 9. sætinu með 46 stig.

Enginn kom við sögu í ensku B-deildinni

Aðeins einn Íslendingur var í leikmannahópi í ensku B-deildinni í dag. Birkir Bjarnason sat allan tímann á varamannabekknum hjá Aston Villa sem vann 2-1 sigur á Bristol City.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun