Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Tap hjá Arnóri og Herði í fyrstu umferð – Guðmundur lagði upp

Arnór og Hörður voru báðir í byrjunarliði CSKA Moskvu þegar liðið tapaði 2-0 fyrir Krilia So­vet­ov.

ÍV/Getty

Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon voru báðir í byrjunarliði CSKA Moskvu þegar liðið beið lægri hlut fyrir Krilia So­vet­ov, 2-0, í 1. umferð rússnesku úrvalsdeildarinnar í dag.

Arnór lék fyrstu 88. mínúturnar í leiknum á meðan Hörður Björgvin lék allan tímann.

Það var Alexander Sobolev sem skoraði bæði mörk Krilia So­vet­ov í leiknum og komu þau með 7. mínútna millibili í síðari hálfleik.

Næsti leikur CSKA Moskvu er næsta laugardag en þá mun Orenburg fara í heimsókn til Íslendingaliðsins.

Gummi Tóta með stoðsendingu í tapi

Guðmundur Þórarinsson lagði upp sitt annað mark í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni er Norrköping tapaði 2-1 gegn Östersunds í leik liðanna í dag.

Guðmundur, eða Gummi Tóta eins og hann er kallaður, lék allan leikinn fyrir Norrköping í dag.

Östersunds náði forystu í leiknum snemma í síðari hálfleik en á 65. mínútu leiksins átti Guðmundur fína sendingu á samherja sinn Jordan Larsson sem jafnaði metin í 1-1.

Því miður fyrir Norrköping, þá skoraði Östersunds sitt annað mark í leiknum þegar þrjár mínútur voru liðnar af uppbótartíma síðari hálfleiks. Hosam Aiesh var þar á ferðinni fyrir Östersunds og lokatölur því 2-1 fyrir Östersunds.

Norrköping er með 24 stig í 6. sæti deildarinnar að loknum 16 umferðum. Næsti leikur liðsins er næsta fimmtudag þegar það mun spila seinni viðureign sína við írska liðið St. Patrick’s Athletic í 1. um­ferð undan­keppni Evr­ópu­deild­ar­inn­ar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun