Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sverrir Ingi og félagar með sigur í fyrri leik undanúrslita

Sverrir Ingi lék allan tímann í 2-0 sigri PAOK á Tripolis í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum grísku bikarkeppninnar.

Gríska liðið PAOK bar sigurorð af liði Asteras Tripolis, 2-0, á heimavelli í fyrri leik liðanna í grísku bikarkeppninni í dag.

Sverrir Ingi Ingason leikur með PAOK og hann var í byrjunarliði liðsins og lék allan leikinn í dag.

Sigur PAOK var töluvert öruggari en lokatölur gáfu til kynna en liðið var meira með boltann og átti þrettán marktilraunir á móti einni hjá Tripolis.

Leo Matos, liðsfélagi Sverris Inga, gerði bæði mörk PAOK í leiknum. Fyrra markið kom á 17. mínútu og það seinna bættist við í viðbótartíma í seinni hálfleiknum.

Seinni leikur PAOK og Asteras Tripolis fer fram eftir þrjár vikur, eða þann 24. apríl.

Sverrir Ingi, sem gekk í raðir PAOK í lok janúar, var að leika sinn fjórða leik með félaginu eftir að hafa verið keyptur frá rússneska félaginu Rostov.

Sverrir á enn eftir að leika í grísku úrvalsdeildinni fyrir PAOK, sem trónir á toppi deildarinnar með 70 stig og alls tíu stiga forskot á Olympiacos í öðru sætinu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun