Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sverrir öfl­ug­ur í sigri PAOK – Drama­tísk­ur sig­ur hjá Elmari

Sverrir Ingi átti flott­an leik fyrir PAOK og Theodór Elmar spilaði í dramtískum sigri.

Mynd/gazzetta.gr

Sverrir Ingi Ingason og samherjar hans hjá PAOK unnu 2-0 heimasigur á Xanthi í grísku úrvalsdeildinni í dag.

Diego Biseswar og Jose Angel Crespo gerðu mörk PAOK en þau komu bæði á lokakaflanum. Sverrir Ingi lék allan leikinn í hjarta varnarinnar og átti góðan leik.

Sverrir Ingi fékk 7 í ein­kunn hjá gríska miðlinum SDNA en aðeins fjórir leikmenn liðsins fengu hærri einkunn.

PAOK skaust í topp­sætið um stund­ar­sak­ir en er áfram í öðru sæti deildarinnar með 31 stig, jafnmörg og Olympiacos, sem hefur betri markatölu og er um þessar mundir að vinna Panetolikos 1-0 þegar um þrjátíu mínútur eru liðnar.

Drama­tísk­ur sig­ur hjá Elmari

Theodór Elmar Bjarnason og liðsfélagar hans í tyrkneska liðinu Akhisarspor unnu góðan 4-3 sigur á Istanbulspor AS í tyrknesku 1. deildinni. Theodór Elmar lék allan leikinn fyrir Akhisarspor á miðjunni.

Akhisarspor leiddi með einu marki gegn engu í hálfleik en fjörið var talsvert meira í seinni hálfleik.

Fimm af mörkunum sex í seinni hálfleik komu á rúmlega tuttugu mínútna kafla. Þegar venjulegur leiktími var liðinn, ein mínútu komin fram yfir og allt stefndi í jafn­tefli, skoraði Sokol Cikalleshi sigurmark fyrir Akhisarspor.

Akhisarspor er í öðru sæti deildarinnar með 25 stig, fimm stigum á eftir toppliði Hatayspor eftir 14 umferðir.

Aron Bjarna byrjaði í sigurleik

Aron Bjarnason var í byrjunarliði Újpest þegar liðið hafði betur gegn Varda SE, 1-0, í efstu deildinni í Ungverjalandi í dag.

Aron var tekinn af velli eftir rúmlega klukkutíma leik. Újpest er í 5. sæti deildarinnar með 23 stig að loknum 15 umferðum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun