Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sverrir Ingi tvöfaldur meistari

Sverrir Ingi kom inn á sem varamaður þegar PAOK varð í kvöld grískur bikarmeistari.

Sverrir Ingi Ingason og liðsfélagar hans í PAOK urðu í kvöld grískir bikarmeistarar eftir 1-0 sigur á AEK Aþenu í úrslitaleik á Ólympíuleikvanginum í Aþenu. Sverrir Ingi byrjaði á varamannabekknum en kom inn á sem varamaður í uppbótartíma seinni hálfleiks.

PAOK vann einnig grísku úrvalsdeildina og liðið er því tvöfaldur meistari. Þetta er annað árið í röð sem PAOK vinnur grísku bikarkeppnina og var þetta jafnframt 7. titill félagsins í keppninni.

Það var Chuba Akpom sem skoraði eina markið í úrslitaleiknum í kvöld en það var ekki af verri endanum, því hann skoraði með hjólhestaspyrnu rétt fyrir leikhléið. Markið má sjá hér að neðan.

Tímabilinu í Grikklandi er nú lokið og Sverrir Ingi lék fimm bikarleiki og einn deildarleik fyrir PAOK síðan hann gekk í raðir félagsins frá Rostov í janúar á þessu ári.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun