Fylgstu með okkur:

Fréttir

Sverrir Ingi fær loks tæki­færi í byrjunarliðinu

Að landsleikjahléi loknu kemur Sverrir Ingi inn í byrjunarlið PAOK, samkvæmt fréttum í Grikklandi.

Mynd/tromaktiko

Að landsleikjahléi loknu með íslenska landsliðinu fær Sverrir Ingi Ingason loksins tækifæri í byrjunarliðinu hjá PAOK í grísku úrvalsdeildinni.

Miðvörðurinn Fernando Varela frá Grænhöfðaeyjum varð fyrir meiðslum í leik með PAOK um síðustu helgi og verður frá keppni og æfingum í 4-6 vikur. Frá þessu greina grískir fjölmiðlar í dag.

Sverri Inga er því ætlað það hlutverk að fylla skarðið sem Fernando Varela skilur eftir sig í vörninni. Í sumar átti Sverrir upphaflega að taka við miðvarðarstöðunni af Varela sem ætlaði ekki að framlengja samning sinn við félagið en tók hins vegar að lokum ákvörðun um að framlengja.

Sverrir Ingi, sem er 26 ára, gekk til liðs við PAOK í janúar þar sem hann var keyptur frá rússneska félaginu Rostov fyrir tæpar fjórar milljónir evra og varð þar með einn dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Hann lék sex leiki fyrir PAOK á síðustu leiktíð og varð tvöfaldur meistari með liðinu. Aðeins einn þeirra leikja var í grísku úrvalsdeildinni en hann hefur spilað bikarleiki liðsins og hjálpaði liðinu að landa bikartitlinum.

Á þessari leiktíð hefur Sverrir aðeins leikið einn leik með PAOK og þá kom hann inn af bekknum í grísku úrvalsdeildinni fyrir Fernando Varela sem varð fyrir meiðslum. Í kjölfarið dró Sverrir sig út úr landsliðshópnum í síðasta mánuði til að reyna að vinna sér sæti í byrjunarliði PAOK en þurfti að sætta sig við bekkjarsetu í næstu leikjum liðsins.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir