Fylgstu með okkur:

Fréttir

Sverri Inga ætlað stórt hlutverk á næstu leiktíð

Sverrir Ingi verður að öllum líkindum lykilmaður hjá gríska liðinu PAOK á næstu leiktíð.

Mynd/SportFm

Răzvan Lucescu, knattspyrnustjóri gríska stórliðsins PAOK, ætlar að leggja traust sitt á Sverri Inga Ingason sem byrjunarliðsleikmann fyrir næstu leiktíð. Grískir miðlar slá þessu upp í dag en þetta kemur m.a. fram á vefsíðu hjá einni virtustu útvarpsstöð í Grikklandi, Sport FM.

Sverri Inga er ætlað að fylla skarðið sem Fernando Varela skilur eftir í vörninni hjá PAOK. Varela hefur leikið síðustu þrjár leiktíðir í stöðu miðvarðar hjá félaginu en hann rennur út á samningi í sumar og ætlar ekki að framlengja samning sinn.

Sverrir Ingi, sem er 25 ára, gekk í raðir PAOK í lok janúar þar sem hann var keyptur frá rússneska félaginu Rostov fyrir tæpar fjórar milljónir evra.

Sverrir Ingi lék sex leiki fyrir PAOK á leiktíðinni og varð tvöfaldur meistari með liðinu. Aðeins einn þeirra leikja var í grísku úrvalsdeildinni en hann lék alla bikarleiki liðsins síðan hann kom til félagsins og hjálpaði liði sínu að landa bikartitlinum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir