Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Svekkjandi jafntefli hjá Jóni Degi og félögum

Jón Dagur lék næstum allan leikinn þegar Vendsyssel gerði 3-3 jafntefli við Hobro í dönsku úrvalsdeildinni.

ÍV/Getty

Dönsku liðin Vendsyssel FF og Hobro skildu jöfn, 3-3, í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Jón Dagur Þorsteinsson lék næstum allan leikinn en honum var skipt af velli í viðbótartíma.

Jón Dagur er á láni hjá Vendsyssel frá Fulham út þessa leiktíð.

Hobro komst yfir snemma leiks en Vendsyssel jafnaði metin eftir hálftíma leik. Staðan var 1-1 í leikhléi.

Vendsyssel skoraði tvö mörk á átta mínútna kalfa í seinni hálfleik. Liðið var því með fína forystu en Hobro átti eftir að svara fyrir sig.

Hobro minnkaði muninn á 75. mínútu og náði að jafna leikinn í 3-3 í viðbótartíma, stuttu eftir að Jón Dagur fór af velli.

Hefðbundnu leiktímabili í dönsku úrvalsdeildinni lauk fyrir tveimur vikum en öll liðin leika í umspili næstu vikurnar. Efstu sex liðin eru í umspili um meistaratitillinn á meðan neðstu átta leika í sitthvorum fall-umspilsriðlinum.

Vendsyssel er í riðli tvö í fall-umspilinu ásamt liðunum Aalborg, Randers og Hobro. Vendsyssel er í þriðja sæti í þeim riðli, með 25 stig, og á hættu að falla niður um deild.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun