Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sveinn Aron skoraði í bik­arn­um

Sveinn Aron skoraði í dag fyrir Spezia á Ítalíu.

Mynd/Spezia

Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði eitt marka Spezia þegar liðið komst af öryggi áfram í ítölsku bikarkeppninni með sigri á Pro Patria á heimavelli sínum, 5-0.

Sveinn Aron var í byrjunarliðinu og skoraði annað mark Spezia í leiknum á 25. mínútu áður en hann var tekinn af velli á 44. mínútu. Þetta var fyrsta mark Sveins í keppnisleik með Spezia. Staðan var 2-0 í hálfleik fyrir Spezia en liðið skoraði þrjú mörk í seinni hálfleik og niðurstaðan því 5-0 sigur Spezia.

Spezia er þar með komið áfram í ítölsku bikarkeppninni. Liðið leikur í ítölsku B-deildinni og keppni í deildinni hefst á nýjan leik eftir tvær vikur. Sveinn Aron, sem er 21 árs, var keypt­ur til Spezia frá Breiðabliki fyrir einu ári síðan og kom átta sinnum við sögu með liðinu en hann var á láni hjá C-deildarliðinu Ravenna á seinni hluta síðustu leiktíðar.

Kolbeinn Þórðarson lék seinni hálfleikinn með nýja liði sínu Lommel sem gerði markalaust jafntefli við Lokeren í belgísku B-deildinni fyrr í dag. Lommel er með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina í deildinni.

Í úrvalsdeildinni í Hvíta-Rússlandi spilaði Willum Þór Willumsson síðustu 18. mínúturnar fyrir BATE Borisov í 4-1 sigri liðsins gegn Energetik-BGU í dag. BATE skoraði öll fjögur mörkin sín á fyrsta hálftímanum og er eftir sigurinn í öðru sæti deildarinnar með 40 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Dinamo Brest.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun