Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Stórsigur hjá Theodóri Elmari – Árni lék í jafntefli í Úkraínu

Theodór Elmar lék í stórsigri í tyrknesku B-deildinni og Árni Vilhjálmsson spilaði í jafntefli í Úkraínu.

Mynd/bursamarmara.com

Theodór Elmar Bjarnason og liðsfélagar hans í Gazişehir Gaziantep unnu í dag 4-1 stórsigur á Adanaspor í tyrknesku B-deildinni.

Theodór Elmar, sem er nýkominn aftur á ferðina eftir meiðsli, lék fyrstu 68. mínúturnar í leiknum í dag. Theodór Elmar varð fyrir tognun aftan í læri í leik með liði sínu í deildinni í lok febrúarmánaðar en sneri til baka síðasta mánudag og spilaði allan tímann í 1-1 jafntefli við Altay í deildinni.

Lið Theodórs, Gazişehir Gaziantep, er á góðri leið með að tryggja sér sæti í umspili um laust sæti í tyrknesku úrvalsdeildinni að ári. Liðið er með 52 stig í 4. sætinu. Efstu tvö liðin í deildinni fara beint upp í tyrknesku úrvalsdeildina á meðan liðin í 3.-6. sæti fara í umspil.

Árni lék í jafntefli í Úkraínu

Árni Vilhjálmsson var í dag í annað skiptið í byrjunarliðinu hjá úkraínska liðinu Chornomorets Odessa. Hann spilaði sem fremsti maður liðsins í dag og lék allan tímann í leik gegn Olimpik Donetsk sem endaði með 1-1 jafntefli. Um var að ræða leik í fall-umspili úkraínsku úrvalsdeildarinnar.

Árni lék um síðustu helgi sinn fyrsta byrjunarliðsleik með liðinu í 1-3 tapi við Arsenal Kyiv.

Árni gekk í raðir félagsins fyrir nokkrum vikum á lánssamningi frá pólska félaginu Termalica Nieciecza út þetta keppnistímabil.

Chornomorets Odessa, lið Árna, var í dag að spila sinn annan leik í fall-umspilinu og er í neðsta sætinu með aðeins 17 stig. Liðið á hættu að falla niður um deild.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun