Fylgstu með okkur:

Fréttir

Skuld­ar 5 millj­ón­ir í skatt í Svíþjóð

Elías skuldar um 5 millj­ón­ir ís­lenskra króna í skatta í Svíþjóð. Sjálfur leit­ar hann nú leiða til að bregðast við þessu.

Elías Már. ÍV/Getty

Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson skuldar um 357 þúsund sænskra króna, eða um 5 millj­ón­ir ís­lenskra króna, í skatta í Svíþjóð, að því er sænska dag­blaðið Göteborgs-Tidningen grein­ir frá.

Um haustið 2018 færði Elías Már sig um set frá sænska liðinu Gautaborg til hollenska liðsins Excelsior. Nú rúmu einu og hálfu ári síðar hefur hann verið rukkaður um ógreidda skatta af skatta­yf­ir­völdum í Svíþjóð eftir að hafa fengið aðvörun, en Innheimtustofnun sænska ríkisins hefur lokið rannsókn málsins.

Skattaskuldirnar eru sagðar vera 14 talsins. Átta þeirra tengjast launagreiðslum Elíasar frá Gautaborg og hljóða þær allar upp á 43 þúsund sænskra króna, sem samsvarar um hálfri milljón íslenskra króna. Hinar sex skuldirnar tengjast innheimtu vegatolla.

„Veist þú hvernig ég get haft samband?“

„Ég hef enga hugmynd hvað þetta gæti hugsanlega verið. Ég veit ekkert um þetta. Ég mun auðvitað laga þetta ef þetta eru einhver mistök. Veist þú hvernig ég get haft samband?“ sagði Elías í samtali við blaðamann Göteborgs-Tidningen.

Eftir samtalið ráðfærði Elías sig við umboðsmann sinn, Ólaf Garðarsson, sem ætlaði að skoða málið nánar.

„Umboðsmaðurinn minn er nú að athuga þetta og ef eitthvað þarf að gera þá munum við auðvitað laga það,“ sagði Elías ennfremur.

Ólafur hafði samband við skatta­yf­ir­völd í Svíþjóð og ræddi síðan við Göteborgs-Tidningen.

„Sú upphæð sem gefin er upp er líklega áætluð vegna þess að Elías skilaði ekki inn skattframtali tímanlega. Ég efast þó um að þetta sé upphæðin sem hann er rukkaður um þar sem hann hvorki seldi eitthvað í Svíþjóð né hagnaðist á einhvern hátt,“ sagði Ólafur.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir