Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sigurmark Oviedo kom í lokin – Diego var á skotskónum

Real Oviedo vann dramatískan sigur í spænsku 1. deildinni í kvöld. Diego Jóhannesson skoraði eitt mark í leiknum.

ÍV/Getty

Real Ovideo hafði betur gegn Rayo Majandahond í næst síðustu umferð spænsku 1. deildarinnar í kvöld. Leikurinn endaði með 4-3 sigri Oviedo en liðið skoraði sigurmark undir lok leiksins.

Rayo Majandahond-liðið náði forystu á 26. mínútu leiksins en Diego Jóhannesson jafnaði metin í 1-1 rétt fyrir leikhlé.

Digeo er uppalinn á Spáni en faðir hans kemur frá Íslandi. Í mars á þessu ári endurnýjaði Diego samning sinn við Ovideo til ársins 2021. Hann á að baki þrjá leiki með A-landsliði Íslands.

Rayo Majandahond skoraði tvö mörk með stuttu millibil um miðbik síðari hálfleiks og Hector Hernandez minnkaði muninn niður í eitt mark fyrir Oviedo þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Joselu jafnaði þá metin í 3-3 fyrir Oviedo á 86. mínútu leiksins.

Það stefndi allt í jafntefli en allt kom fyrir ekki. Töluverðum tíma var bætt við í seinni hálfleik og eftir fjórar mínútur í uppbótartímanum var Joselu enn og aftur á ferðinni þegar hann skoraði sigurmark fyrir Ovideo.

Aðeins ein umferð er eftir í spænsku 1. deildinni og eftir úrslit kvöldsins eiga Diego og samherjar hans í Oviedo enn möguleika á að ná umspilssæti um laust sæti í spænsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Liðið er með 63 stig í 8. sæti og tveimur stigum á eftir Deportivo La Coruna, sem er í síðasta umspilssætinu, í 6. sæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun