Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sig­ur í fyrsta deild­ar­leik Theodórs Elmars með Akhisarspor

Theodór Elmar fer vel af stað.

Theodór Elmar Bjarnason lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Akhisarspor þegar liðið vann sigur á Adanaspor, 1-0, á heimavelli sínum í tyrknesku 1. deildinni í kvöld.

Theodór Elmar gekk til Akhisarspor frá Gazişehir Gaziantep í sumar og var hann í byrjunarliðinu í leiknum kvöld hjá sínu nýja liði en hann lék fyrstu 58. mínútur leiksins.

Akhisarspor fékk gott tækifæri í fyrri hálfleik til að ná forystunni þegar leikmaður liðsins klúðraði vítaspyrnu eftir rúmlega hálftíma leik. Liðið fékk þó annað tækifæri á vítapunktinum í síðari hálfleik þegar átta mínútur voru til leiksloka og kom sigurmarkið úr þeirri spyrnu. Lokatölur urðu 1-0.

Theodór Elmar skrifaði undir samning til tveggja ára hjá Akhisarspor sem féll úr tyrknesku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, en hann hafði komist upp í úrvalsdeildina með Gaziantep á síðustu leiktíð.

Sveinn Aron Guðjohnsen kom ekki við sögu með liði sínu Spezia í leik gegn Sassuolo í ítölsku bikarkeppninni í kvöld. Spezia tapaði leiknum 1-0 og Sveinn Aron sat allan leikinn á varamannabekknum en hann hafði í síðasta bikarleik skorað fyrir liðið í 5-0 stórsigri.

Albert Guðmundsson sat þá allan tímann á varamannabekknum hjá AZ Alkmaar sem gerði markalaust jafntefli við Groningen í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld. AZ Alkmaar er í öðru sætinu í deildinni með 7 stig eftir þrjá leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun