Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sig­ur í fyrsta byrj­un­arliðsleik Daníels – Aron Elís lagði upp mark

Daníel var í fyrsta sinn í byrj­un­arliði Helsingborg þegar liðið vann sigur og Aron Elís lagði upp mark.

Mynd/Helsingborg

Daníel Hafsteinsson var í fyrsta sinn í byrjunarliði Helsingborg þegar liðið hafði betur gegn Sundsvall, 2-1, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Daníel, sem er 19 ára, gekk í raðir Hels­ing­borg­ í sumar frá KA og skrifaði und­ir þriggja og hálfs árs samning við sænska úrvalsdeildarliðið.

Daníel spilaði fyrsta klukkutímann fyrir Helsingborg í leiknum í dag en staðan var markalaus þegar hann fór af velli. Tobias P. Mikkelsen skoraði tvívegis fyrir Helsingborg á lokakaflanum en þar á milli skoraði Sundsvall og lokatölur urðu 2-1 fyrir Helsingborg.

Helsingborg er í 10. sæti af 16 liðum með 30 stig eft­ir 29 leiki. Daníel hefur nú leikið 6 leiki fyrir liðið á leiktíðinni.

Markalaust í Íslendingaslag í Noregi

Lillestrøm og Vålerenga gerðu markalaust jafntefli í norsku úrvalsdeildinni. Arnór Smárason kom inn á sem varamaður á 68. mínútu hjá Lillestrøm og Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn fyrir Vålerenga.

Vålerenga er í 9. sæti deildarinnar með 30 stig á meðan Lillestrøm er tveimur sætum fyrir neðan, aðeins einu stigi minna eftir 26 leiki.

Aron Elís lagði upp fyrir Álasund sem lagði Start

Aron Elís Þrándarson, leikmaður Álasundar, lagði upp annað mark liðsins þegar Pape Habib Gueye skoraði sitt annað mark í sigurleik gegn Start í norsku 1. deildinni.

Gueye skoraði bæði mörkin sín með stuttu millibili um miðbik síðari hálfleiks en stuttu síðar minnkaði Start muninn og þar við sat. Loktölur 2-1 fyrir Álasundi.

Daníel Leó Grétarsson og Aron Elís spiluðu allan leikinn fyrir Álasund. Davíð Kristján Ólafsson var ónotaður varamaður hjá liðinu og Hólmbert Aron Friðjónsson var fjarri góðu gamni. Aron Sigurðarson lék allan leikinn fyrir Start.

Álasund tryggði sér í sæti í norsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og þegar tveimur umferðum er ólokið í norsku 1. deilinni er Álasund öruggt með efsta sæti deildarinnar, fjórtán stigum á undan Sandefjord, sem er í öðru sætinu. Start er þriðja sætinu með 56 stig.

Dagur lék í sigri

Dagur Dan Þórhallsson lék allan leikinn fyrir Kvik Halden þegar liðið bar sigurorð af Nardo í norsku 2. deildinni, 1-0.

Um var að ræða síðustu umferðina í deildinni en Kvik Halden endar í öðru sæti deildarinnar, sem þýðir að liðið er á leið í umspil um síðasta lausa sætið í norsku 1. deildinni að ári.

Atli Barkarson lék ekki með Fredrikstad í miklum markaleik gegn Vidar, 4-4. Fredrikstad endar í þriðja sæti og með 53 stig, fimm stigum minna en Kvik Halden.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun