Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sigur hjá Aroni en tap hjá Gylfa – Patrik kom inn á hjá Brentford

Aron og Gylfi spiluðu báðir í ensku úrvalsdeildinni í dag. Patrik Sigurður spilaði svo í fyrsta sinn með aðalliði Brentford.

Aron í leiknum áðan gegn West Ham. ÍV/Getty

Íslendingaliðin Everton og Cardiff voru bæði í eldlínunni í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gylfi Þór Sigurðsson var á sínum stað í byrjunarliði Everton sem fór í heimsókn til Newcastle United. Everton komst 2-0 yfir í fyrri hálfleik og allt stefndi í öruggan sigur.

En eitthvað ótrúlegt átti sér stað í síðari hálfleiknum. Newcastle komst til baka og skoraði heil þrjú mörk á síðasta hálftímanum í leiknum. Lokaniðurstaðan því 3-2 heimasigur fyrir Newcastle.

Everton er nú dottið niður í 11. sætið í ensku úrvalsdeildinni og ef gengið hjá liðinu heldur svona áfram, þá má búast við því að stjóri Gylfa, Marco Silva, þurfi að lokum að taka pokann sinn.

Aron Einar Gunnarsson var einnig í byrjunarliðinu með liði sínu Cardiff sem vann frábæran 2-0 heimasigur á West Ham.

Eftir þennan frábæra sigur færist liðið nær öruggu sæti í deildinni, en um þessar mundir er liðið í 18. sæti deildarinnar, með 28 stig, tveimur stigum á eftir Burnley.

Jóhann Berg verður svo í eldlínunni með Burnley í hádeginu á morgun þegar liðið fer í heimsókn til Liverpool á Anfield.

Efnilegi markmaðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson var eini Íslendingurinn á leikskýrslu í ensku Championship-deildinni í dag. Patrik var skipt inn á 75. mínútu gegn Middlesbrough í staðinn fyrir Daniel Bentley og þetta var því hans fyrsti leikur með aðalliði Brentford. Patrik átti góðar mínútur í leiknum og varði til að mynda nokkrar skottilraunir.

Jón Daði Böðvarsson var ekki í leikmannahópi Reading og lið Birkis Bjarnasonar, Aston Villa, spilaði ekki í dag, en það mætir Birmingham í nágrannaslag í hádeginu á morgun.

Stefan Alexander Ljubicic var svo á skotskónum með liði sínu, Eastbourne Borough, þegar það mætti Chelmsford í Vanarama-deildinni í dag. Mark hans í leiknum kom eftir einungis fjögurra mínútna leik.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun