Fylgstu með okkur:

Fréttir

Sif um föður­missinn: „Hann gaf svo rosalega mikið af sér“

Sif Atladóttir missti föður sinn, Atla Eðvaldsson, í síðasta mánuði og ræddi föðurmissinn í ítarlegu viðtali við RÚV í gær.

Mynd/Skjáskot af vef Rúv

Sif Atladóttir, leikmaður Kristianstad í Svíþjóð, missti föður sinn, Atla Eðvaldsson, fyrr­ver­andi landsliðsþjálf­ara, landsliðsfyr­irliða og at­vinnumann í fótbolta, í síðasta mánuði eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Sif settist niður með RÚV í gær og talaði ítarlega um föðurmissinn og þann ótrúlega mann sem Atli hafði að geyma.

Atli átti glæstan feril þar sem hann markaði djúp spor í íslenskri fótboltasögu, bæði sem leikmaður og þjálfari.

Sif hefur leikið með Kristianstad síðustu átta ár og er félaginu afar þakklát fyrir hvernig það hafi stutt við bakið á sér.

„Kristianstad gerði ótrúlega mikið fyrir mig. Að ganga í gegnum svona er svolítið erfitt. Að hafa skilning frá atvinnurekanda er ótrúlega mikilvægt en það er ekkert gefið í íþróttaheiminum. Við vissum lengi að pabba væri veikur. Hann var hjá okkur í heilt ár og þar gat ég alltaf fylgst með og hann var alltaf frískur hjá okkur, þó að hann hafi verið með krabbamein. Þannig að ég hafði aldrei áhyggjur. Það var ekki fyrr en að hann fór heim að þá fer maður að hugsa um það hvort maður eigi sjálfur að fara heim eða ekki,” segir Sif.

Sif segir að Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad, hafi reynst þeim hjónum ómetanleg í veikindum Atla en eiginmaður Sifjar, Björn Sigurbjörnsson, starfar hjá Kristianstad og var Elísabet hörð á því að þau hjónin færu heim til Íslands ef þau þyrftu og vildu.

„Hún sagði alltaf að ef þið þurfið að fara heim að þá farið þið bara heim. En svo var pabbi bara frískur svo lengi. Ég man man að ég átti samtal við hann og spurði hvort ég ætti að koma heim eða ekki. Egill bróðir sagði bara „Þú veist alveg hvað hann segir ef þú mætir bara allt í einu heim og það er leikur. Hann mun segja: „Viltu drulla þér út að fara að spila, þú ert að gera það sem þú átt að vera að gera”.

„Það er eiginlega ótrúlega mikil blessun í því að ég hafi verið heima þegar hann fór. Þá fór þessi efi. Að hafa fengið síðustu tímana með honum var ótrúlega mikilvægt.”

Sif segir að það hafi verið ótrulega gaman að alast upp með Atla sem föður og talar vel um þann tíma.

„Við vissum alltaf að pabbi væri þekktur en að sjá öll fallegu minningarorðin og að sjá hvað hann snerti fólk.. Þegar ég var krakki að fara með pabba í bæinn, sem átti að taka tíu mínútur, að það tók alltaf 2-3 tíma. Maður hékk á hendinni og sagði: „Jæja, pabbi nú drífum við okkur!” En það var alveg sama hver það var, hvort sem það hafi verið einhver sem hann þekkti eða einhver sem hafði skoðun, hann stoppaði alltaf og talaði við fólkið.”

„Oftar en ekki spurði ég hann hver þetta var og hann vissi það ekki: “Bara einhver sem þurfti að tala við mig.” Ég upplifði það alltaf þannig að þegar fólk fór frá honum að þá var það í miklu betra skapi heldur en þegar það kom. Hann gaf svo rosalega mikið af sér. En við áttuðum okkur í rauninni aldrei á því hversu frægur hann var fyrr en hann fer.”

Atli var ekki einungis þekktur á Íslandi, en hann átti farsælan feril erlendis og skoraði meðal annars 72 mörk í atvinnumennskunni: 11 fyrir Borussia Dortmund, 39 fyrir Fortuna Düsseldorf, 11 fyrir Uerdingen, 6 fyrir TuRU Düsseldorf og 5 fyrir Gençlerbirliği.

Sjá einnig: Svip­mynd­ir frá at­vinnu­manna­ferli Atla Eðvaldssonar

Sif segir að það hafi verið súrsætt að lesa öll minningarorðin um hann.

„Ég veit líka hvað hann gekk í gegnum. Hann fer til Þýskalands og sækir sér þessa þjálfaragráðu. Svo kemur hann heim og þá varð maður pínu reiður. Helst af því að maður sá hann lenda í svo rosalegu mótlæti.”

„Þá hugsar maður stundum: „Hvar var fólkið þegar hann þurfti mest á því að halda?”. Þegar maður fer að rifja þetta upp getur maður orðið pínu reiður. En svo sagði Egill bróðir að pabbi hefði hugsað með sér: „Það er ekki það sem skiptir máli.”. Fólk er að minnast hans af því að hann var svo dásamlegur. Svo næst, ef einhver bankar upp á og þú átt möguleikann á því að opna dyrnar, að þá kannski opnarðu dyrnar”.

„Pabbi hefði líka sagt þetta. Bara að ef við getum hjálpað hvoru öðru að þá er það mjög mikilvægt. Ég held að það hafi lýst honum ótrúlega vel. Ef að pabbi hefði átt möguleikann á að opna dyrnar fyrir þeim sem bankaði upp hjá honum að þá hefði hann alltaf gert það.”

„Það var alltaf heitt á könnunni hjá honum og það skipti ekki máli hver það var. Ég held að minningarorðin um hann frá, ekki bara þjóðinni heldur heiminum, lýsi honum ótrúlega vel. Hann gaf sér alltaf tíma og það er eitthvað sem við systkinin munum klárlega taka með okkur. Ég held að við höfum fengið svolítið mikið frá honum því við reynum að gefa okkur tíma fyrir allt og alla. Það er bara af því að hann leiddi þá leið frá því við vorum ung.”

Viðtalið má sjá með því að smella hér.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir