Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Síðasti heimaleikur Arons með Cardiff á morgun

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar leikur á morgun sinn síðasta heimaleik með Cardiff City í ensku úrvalsdeildinni.

ÍV/Getty

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson leikur sinn síðasta heimaleik fyrir Cardiff City þegar liðið fær Crystal Palace í heimsókn í síðdegisleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun.

Aron gengur í raðir Al-Arabi í Katar í byrjun júlí og þar mun hann leika undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, sem var þjálfari hans hjá íslenska landsliðinu frá 2011 og til ársins í fyrra.

Aron hefur leikið 284 leiki fyrir Cardiff í öllum keppnum frá árinu 2011 og í þeim leikjum hefur hann gert 25 mörk og lagt upp önnur 23. Hann er nú að klára sína aðra leiktíð í ensku úrvalsdeildinni með Cardiff en hann lék einnig með liðinu í deildinni tímabilið 2013-14.

Áður en Aron fór til Cardiff lék hann með Coventry City þar sem hann lék alls 133 leiki.

Cardiff-liðið þarf nauðsynlega á sigri að halda á morgun til að eiga möguleika á að vera í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð, en liðið er í fallsæti, fjórum stigum frá öruggu sæti, þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Aron var fljótur að ávinna sér miklar vinsældir meðal stuðningsmanna Cardiff og hans verður sárt saknað í allri Cardiff-borg. Stuðningsmenn félagsins hafa í vikunni birt myndir af sér ásamt honum, sem sýnir hvað hann er vinsæll í Cardiff. Margar myndir birtust af Aroni með stuðningsmönnum þegar Cardiff bað fólk á Twitter að senda inn myndir til að hafa í sérstöku blaði sem hægt er að kaupa á leiknum á morgun. Sjá má fullt af myndum af Aroni í Twitter-þráð félagsins með því að smella hér.

„Hann hefur reynst liðinu frábærlega. Hann á mikinn heiður skilið fyrir hvað hann hefur gert fyrir Cardiff jafnt innan sem utan vallar. Ég held að hann verði alltaf í uppáhaldi hérna á Cardiff-heimavellinum,“ sagði Neil Warnock, þjálfari Arons, á fréttamannafundi í dag.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun