Fylgstu með okkur:

Fréttir

Set­ur markið hátt en hefur lítið getað æft

Kolbeinn set­ur markið hátt fyr­ir kom­andi leiktíð í sænsku úrvalsdeildinni, þrátt fyr­ir að hafa lítið æft á undirbúningstímabilinu.

Mynd/dn.se

Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður AIK, set­ur markið hátt fyr­ir kom­andi leiktíð í sænsku úrvalsdeildinni og vonast til þess að lið sitt endurtaki leikinn frá því í hittifyrra þegar liðinu tókst að hampa sænska meistaratitlinum. Kolbeinn var á dögunum í viðtali við Fotbolldirekt í Svíþjóð.

„Ég myndi vilja verða sænskur meistari með AIK. Ég vil fá að upplifa það sama og liðsfélagar mínir fyrir tveimur árum. Það er mitt helsta markmið og síðan skulum við sjá til hvað gerist eftir það,“ sagði Kolbeinn sem er vongóður um að fleiri möguleikar verði að veruleika ef vel gengur á þessu ári.

„Það verður allt opið ef ég mun eiga gott tímabil í ár. Ég get farið á Evrópumótið með Íslandi og allar dyr gætu opnast fyrir nýjum möguleikum. Ég set mér markmið og eitt þeirra er að skora í hverjum einasta leik. Að mínu mati er ég fullfær um það.“

Í betra standi núna en hjá Ajax

Kolbeinn var spurður út í muninn á að spila með Ajax og AIK. „Ég er í betra standi núna en þegar ég var hjá Ajax . Á síðustu leiktíð var ég í fyrsta sinn laus við meiðsli. Þegar ég var hjá Ajax þá var ég stöðugt að glíma við meiðsli og ýmislegt annað sem fór í taugarnar á mér. Ég er orðinn eldri og reynslunni ríkari. Vonandi verð ég heill heilsu út alla leiktíðina.“

Kolbeinn segir að skrokkurinn sé farinn að venjast því að spila aftur fótbolta en hann vonast til að haldast heill út árið til þess að skora fullt af mörkum.

„Síðasta ár var gott fyrir mig. Skrokkurinn fór aftur að venjast því að spila fótbolta og ég býst við meiru af sjálfum mér á þessu ári. Ef ég verð laus við meiðsli og liðið spilar vel þá er ég 100% viss um að ég muni skora fullt af mörkum.“

20 mörk?

„Það væri frábært að skora 20 mörk. Ég fer bara inn í hvern leik til að vinna hann og skora mörk. Þetta snýst einnig um sjálfstraust, en ég ætla ekki að segja hvað markmiðið er. Við sjáum til hvað gerist,“ svaraði Kolbeinn.

Hefur lítið æft á undirbúningstímabilinu

Kol­beinn hefur lítið æft með AIK á þessu ári vegna bæði meiðsla og veikinda. Að sögn Rik­ard Norling, knatt­spyrn­u­stjóra AIK, verður Kolbeinn ekki klár í slaginn þegar liðið spilar við Jön­k­öp­ing í sænsku bikarkeppninni næsta sunnudag.

„Hann er ekki að æfa á fullu svo hann er ekki klár í slaginn núna. Hann hefur varla spilað og varla æft. Hann hefur til þessa átt svolítið erfitt undirbúningstímabil,“ sagði Rik­ard Norling um Kolbein.

Keppni í sænsku úrvalsdeildinni hefst á ný í byrjun apríl en AIK endaði í 4. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð. Kolbeinn lék 17 deildarleiki á síðasta ári og skoraði í þeim leikjum þrjú mörk.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir