Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sara lék allan leikinn er Wolfsburg datt út

Sara Björk og stöllur hennar í Wolfsburg duttu út gegn Lyon í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. 

Úr fyrri viðureigninni. ÍV/Getty

Liðin Wolfsburg og Lyon mættust í seinni viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Wolfsburg var fyrir leikinn í kvöld marki undir í einvíginu eftir að hafa tapað fyrri viðureigninni 2-1 í síðustu viku.

Sara Björk Gunnarsdóttir, sem er á mála hjá Wolfsburg, lék allan leikinn í kvöld.

Lyon komst í kvöld yfir snemma leiks eftir aðeins átta mínútna leik. Fimmtán mínútum síðar bætti liðið öðru marki við úr vítaspyrnu. Staðan í leikhléi, 0-2, Lyon í vil.

Wolfsburg komst aftur inn í leikinn snemma í seinni hálfleik en liðið jafnaði leikinn með tveimur mörkum á stuttu millibili. Danska landsliðskonan Pernille Harder sá um að gera bæði þessi mörk fyrir Wolfsburg.

Eftir klukkutíma leik skoraði Lyon sitt þriðja mark í leiknum og tuttugu mínútum síðar kom það fjórða sem reyndist vera síðasta mark leiksins. Lokaniðurstaða 2-4 sigur Lyon.

Lyon vann einvígið samtals 3-6 og hefur tryggt sér sæti í undanúrslitum keppninnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun