Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sara Björk þýskur meistari þriðja árið í röð

Sara Björk og samherjar hennar í Wolfsburg tryggðu sér þýska meistaratitilinn í dag.

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur í Wolfsburg tryggðu sér endanlega þýska meistaratitilinn í dag með 0-1 útisigri á Hoffenheim en með því náði Wolfsburg sjö stiga forskoti á Bayern Munchen sem á tvo leiki eftir.

Sara Björk var að venju á miðjunni hjá Wolfsburg í leiknum í dag og spilaði allan tímann.

Það var Pia-Spohie Wolter sem skoraði eina mark leiksins en það mark kom rétt fyrir leikhléið, á 42. mínútu.

Þetta er þriðja ár Söru hjá Wolfsburg og hefur hún orðið þýskur meistari öll árin. Þá hefur Sara einnig unnið þýsku bikarkeppnina öll þrjú árin með Wolfsburg en liðið varð fyrr í vikunni þýskur bikarmeistari eft­ir 1-0 sigur á Freiburg í bikarúrslitum.

Sara og stöllur eiga einn leik eftir í deildinni sem fer fram um næstu helgi þegar Turbine Potsdam kemur í heimsókn.

Sandra María lék í tapi

Sandra María Jessen var einnig í eldlínunni í þýsku úrvalsdeildinni í dag. Hún spilaði allan tímann í 4-2 tapi Bayer Leverkusen gegn Frankfurt í dag. Sandra og stöllur eru í fallsæti en geta bjargað sér frá falli með góðum úrslitum um næstu helgi í síðustu umferðinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun