Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Sandhausen mistókst að jafna toppliðið að stigum

Rúrik og félögum tókst ekki að jafna toppliðið í þýsku B-deildinni að stigum eftir tap í kvöld.

Rúrik. Mynd/kurier.de

Rúrik Gíslassyni og félögum hans í Sandhausen tókst ekki að jafna toppliðið í þýsku B-deildinni að stigum eftir 1-0 tap gegn Karlsruher SC í kvöld.

Rúrik var í byrjunarliðinu og lék allan leikinn í kvöld. Eina mark leiksins kom á 57. mínútu og það gerði Manuel Stiefler.

Með sigri hefði Sandhausen jafnað Hamburg að stigum á toppi deildarinnar, en eftir úrslit kvöldsins er Sandhausen í 4. sæti deildarinnar með 10 stig eftir sex leiki.

Í dönsku úrvalsdeildinni lék Eskfirðingurinn Eggert Gunnþór Jónsson allan leikinn fyrir SønderjyskE í markalausu jafntefli gegn Horsens. Ísak Óli Ólafsson, sem gekk til liðs við SønderjyskE í sumar, sat allan tímann á varamannabekknum.

Um var að ræða fimmta jafnteflið sem SønderjyskE gerir á leiktíðinni en liðið hefur spilað níu leiki og er í 7. sæti deildarinnar með 11 stig.

Þá sat Elías Már Ómarsson allan tímann á varamannabekknum þegar lið hans Excelsior vann 4-2 sigur á Almere City í B-deildinni í Hollandi. Excelsior er í öðru sæti deildarinnar með 13 stig eftir sex leiki.

Í Svíþjóð spilaði Anna Rakel Pétursdóttir í 84 mínútur með liði sínu Linköping sem þurfti að sætta sig við 1-0 tap gegn Eskilstuna United. Linköping siglir lygnan sjó í deildinni og er í 6. sætinu með 26 stig eftir 17 leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun