Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Samúel og félagar með fullt hús stiga

Samúel Kári Friðjónsson og samherjar hans í Viking eru með fullt hús stiga í norsku úrvalsdeildinni.

Mynd/Dagsavisen

Samúel Kári Friðjónsson og samherjar hans í Viking eru með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki sína í norsku úrvalsdeildinni. Viking vann í kvöld 2-1 sigur á Brann.

Samúel Kári var á miðjunni í leiknum og lék fyrstu 82. mínúturnar.

Axel Óskar Andrésson er einnig á mála hjá Viking en hann glímir við alvarleg hnémeiðsli sem heldur honum frá keppni út leiktíðina. Hann varð fyrir meiðslunum í fyrsta leiknum á leiktíðinni.

Markalaust var í fyrri hálfleik í leiknum í kvöld en eftir tæpan klukkutíma leik komst Viking yfir. Um korteri síðar skoraði Viking annað mark og það mark fór langt með það að tryggja liðinu sigur. Brann var aftur á móti betri aðilinn heilt yfir í leiknum og átti alls 25 marktilraunir á móti aðeins átta hjá Viking.

Brann náði að minnka muninn í 2-1 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og þar við sat í markaskorun. 2-1 sigur hjá Viking í kvöld.

Leikmaður Brann sagði í viðtali við VG eftir leikinn að lið sitt hafi verið rænt þremur víta­spyrn­um í leikn­um. Mikil reiði er þá á samfélagsmiðlum vegna frammistöðu dómaranna í leiknum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun