Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Samúel Kári skoraði í lokaum­ferðinni – Lillestrøm mætir Start

Samúel Kári var á skotskónum fyrir Viking í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar.

Mynd/aftenbladet

Síðasta um­ferð norsku úr­vals­deild­ar­inn­ar fór fram í dag og þar voru tveir Íslendingar í eldlínunni.

Samúel Kári Friðjónsson kom inn á sem varamaður á 69. mínútu og skoraði fimmta og síðasta mark Viking í 5-1 stórsigri liðsins gegn Brann. Í uppbótartíma leiksins fékk Samúel Kári stungusendingu í gegnum vörn Brann og skoraði einn gegn markmanni sem hann fór illa með.

Þetta var þriðja mark Samúels í 28 leikjum með Viking í deildinni á tímabilinu en hann er á lánssamningi frá Vålerenga út árið. Markið hans í leiknum í dag kemur eftir um 3 mínútur og 20 sekúndur hér að neðan.

 

Viking endar í 5. sæti deildarinnar með 47 stig, fimm stigum á eftir næsta liði Odd. Leiktíðinni er þó ekki alveg lokið hjá Viking, því liðið mætir Haugesund um næstu helgi í úrslitaleik norsku bikarkeppninnar.

Arnór Smárason lék fyrsta klukktímann fyrir Lillestrøm sem gerði markalaust jafntefli við Sarpsborg. Lillestrøm var á meðal sex liða sem gátu fallið úr deildinni en endaði að lokum í 14. sæti deildarinnar, sem er fallumspilssæti.

Ran­heim og Tromsø féllu niður um deild og Lillestrøm mun koma til með að leika til úrslita í umspili gegn Start, heima og að heim­an, um síðasta lausa sætið í norsku úrvalsdeildinni að ári.

Matthías Vilhjálmsson var ekki í leikmannahópi Vålerenga sem tapaði fyrir Mjøndalen, 1-0. Vålerenga endar í 10. sæti.

Þá var Oliver Sigurjónsson ekki í leikmannahópi Bodø/Glimt þegar liðið tapaði 4-2 fyrir Molde í uppgjöri tveggja efstu liðanna í deildinni. Bodø/Glimt endar í öðru sæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið