Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Samúel Kári hafði betur gegn Arnóri

Samúel Kári lék allan tímann þegar lið hans Viking vann sigur á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Viking vann góðan 2-0 útisigur á Lillestrøm í norsku úrvalsdeildinni í dag. Samúel Kári Friðjónsson lék allan leikinn fyrir Viking og Arnór Smárason spilaði síðasta korterið fyrir Lillestrøm.

Rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks skoraði Kristian Thorstvedt fyrir Viking eftir hornspyrnu og fóru gestirnir því með 1-0 forystu inn í leikhléið. Þegar tólf mínútur lifðu leiks skoraði Viking enn og aftur eftir hornspyrnu en Viljar Vevatne var þar á ferðinni með skallamark. YIIdren Ibrahimaj tók báðar hornspyrnurnar í báðum mörkunum hjá Viking.

Viking er í 7. sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir sigur í dag og er komið með 17 stig eftir tíu umferðir. Lillestrøm er í 11. sæti með 12 stig.

Oliver Sigurjónsson og Dagur Dan Þórhallsson sátu báðir á varamannabekknum hjá liðum sínum í norsku úrvalsdeildinni í dag. Oliver var á bekknum hjá Bodø/Glimt sem vann 2-0 heimasigur á Strømsgodset. Dagur Dan var á bekknum er lið hans Mjøndalen gerði 1-1 jafntefli við Kristiansund. Bodø/Glimt er í 3. sæti deildarinnar með 20 stig og Mjøndalen er í 13. sæti með 10 stig.

Í norsku 1. deildinni spilaði Viðar Ari Jónsson síðasta hálftímann í 2-0 sigri Sandefjord gegn Notodden á útivelli í dag. Sandefjord er í 2. sæti deildarinnar með 24 stig, fimm stigum frá toppliði Álasundar.

Í sænsku B-deildinni í dag tapaði Íslendingaliðið Mjällby fyrir Halmstads, 2-0. Óttar Magnús Karlsson og Gísli Eyjólfsson voru á varamannabekknum hjá Mjällby í leiknum en Óttar Magnús kom inn á sem varamaður á 66. mínútu.

Í Hvíta-Rússlandi í dag var Willum Þór Willumsson ónotaður varamaður þegar lið hans BATE Borisov fór á topp hvít-rússnesku úrvalsdeildarinnar. Liðið hefur nú unnið fimm leiki í röð og er komið með 27 stig að 11 umferðum loknum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun