Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Samúel Kári fagnaði stór­sigri í Íslend­inga­slag – Davíð Kristján lagði upp

Samúel Kári lék allan leikinn þegar lið hans vann stórsigur í Íslend­inga­slag.

Mynd/Viking

Samúel Kári Friðjónsson lék allan leikinn á miðjunni hjá Viking þegar liðið vann stórsigur á Matthíasi Vilhjálmssyni og félögum í Vålerenga á útivelli, 4-0.

Viking var komið með 2-0 forystu eftir 23 mínútur og liðið skoraði síðustu tvö mörkin á lokakafla leiksins. Ekkert gekk hjá Vålerenga í leiknum en liðið klúðraði vítaspyrnu fljótlega í síðari hálfleiknum. Matthías spilaði allan tímann í fremstu víglínu hjá Vålerenga.

Viking er í 7. sæti deildarinnar með 33 stig á meðan Vålerenga er í 9. sæti með 27 stig efir 22 umferðir.

Arnór Smárason lék allan leikinn fyrir Lillestrøm sem gerði 1-1 jafntefli við Kristiansund.

Kristiansund klúðraði víti á 24. mínútu en mörkin í leiknum komu sitt hvor­um meg­in við hálfleik­inn. Lillestrøm er í 10. sæti með 26 stig.

Þá var Oliver Sigurjónsson ekki í leikmannahópi Bodø/Glimt sem gerði 1-1 jafntefli við Ranheim. Bodø/Glimt er í öðru sæti með 43 stig, þremur stigum á eftir toppliði Molde.

Álasund stefn­ir hraðbyri upp um deild

Íslendingaliðið Álasund er komið í ansi vænlega stöðu í toppbaráttu norsku 1. deildarinnar eftir 3-1 sigur gegn Notodden. Álasund trónir á toppi deildarinnar með 63 stig og er með 13 stiga forskot á Sandefjord, sem er í öðru sæti, eftir 24 leiki.

Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn fyrir Álasund og lagði upp annað markið liðsins í leiknum. Hólmbert Aron Friðjónsson kom inn af bekknum á 77. mínútu og Aron Elís Þrándarson sat allan tímann á bekknum en Daníel Leó Grétarsson tók út leikbann eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik.

Viðar Ari Jónsson var í byrjunarliði Sandefjord og lék allan tímann er liðið gerði 3-3 jafntefli við KFUM. Sandefjord er í öðru sæti með 50 stig.

Start steinlá þá nokkuð óvænt fyrir Hamarkameratene, 4-0. Aron Sigurðarson var að venju í byrjunarliði Start og spilaði allan leikinn. Start er þriðja sætinu með 49 stig.

Atli Barkarson kom inn á sem varamaður hjá Fredrikstad þegar liðið lagði Brattvag, 3-2, í norsku 2. deildinni. Fredrikstad er í þriðja sæti deildarinnar með 43 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun