Fylgstu með okkur:

Fréttir

Sameinaðir á ný – „Spennandi tímar framundan og aldrei að vita hvað okkur tekst að gera“

Emil og knattspyrnustjórinn Mandorlini eru sam­einaðir á ný. Fyrir nokkrum árum náðu þeir frábærum árangri saman.

Ítalska liðið Calcio Padova, lið Em­ils Hall­freðsson­ar, skipti fyrr í vikunni um knattspyrnustjóra. Salvatore Sullo var sagt upp störfum og Andrea Mandorlini ráðinn í hans stað.

Mandorlini og Emil þekkjast mjög vel en þeir störfuðu áður saman hjá Hellas Verona og náðu frábærum árangri.

Mandorlini stýrði Hellas Verona á ár­un­um 2010 til 2015 og Emil var leikmaður liðsins allan þann tíma. Undir stjórn Mandorlini fór liðið úr ítölsku C-deild­inni upp í A-deild­ina. Emil yfirgaf síðan liðið árið 2016 þegar hann gekk í raðir Udinese.

Padova er í 5. sæti í B-riðli ítölsku C-deild­ar­inn­ar og því í baráttu um að komast upp um deild. Sig­ur­veg­ar­ar riðlanna þriggja fara beint upp um deild á meðan lið í efri hluta riðlanna fara í erfitt um­spil í vor um laus sæti í B-deildinni.

Emil er að vonum spenntur fyrir tímunum framundan hjá Padova, en í gær setti hann færslu á Instagram og birti mynd af sér ásamt Mandorlini.

„Fyrir tíu árum síðan lágu leiðir okkar Mister Mandorlini fyrst saman hjá Hellas Verona. Undir hans stjórn fórum við úr C upp í A og náðum góðum árangri þar og t.d rétt misstum af Evrópusæti. Það eru því spennandi tímar framundan og aldrei að vita hvað okkur tekst að gera hérna í Padova,“ skrifaði Emil á Instagram-síðu sína.  

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir